„Ekki verður Dagur sakaður um metnaðarleysi í skáldsögunni. Gerð er atlaga að fjölmörgum forvitnilegum viðfangsefnum og sumum hverjum býsna flóknum,“ segir Björn Þór Vilhjálmsson um skáldsöguna Við erum ekki morðingjar eftir Dag Hjartarson.


Björn Þór Vilhjálmsson skrifar:

„Hef ég drepið mann eða hef ég ekki drepið mann? Hver hefur drepið mann og hver hefur ekki drepið mann? Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann? Fari í helvíti sem ég drap mann. Og þó.“ Hér er auðvitað um að ræða tilvitnun í fleyg orð Jóns Hreggviðssonar í Íslandsklukku Halldórs Laxness og ekki er úr vegi að hefja umfjöllun um aðra skáldsögu Dags Hjartarsonar, Við erum ekki morðingjar, með þau í huga, því eins og titillinn gefur til kynna með býsna afdráttarlausum hætti liggur ásökun um mannsmorð frásögninni til grundvallar, ásökun sem titillinn að vísu ber af sér og hafnar. Engu að síður kann lesandi, jafnvel áður en lestur hefst, að búa sér til hugmyndir um dramatíska framvindu þar sem glæpsamlegt athæfi eða myrkraverk af einhverju tagi eru annað hvort í forgrunni eða krauma undir frásögninni. Hvað skriðþunga hinnar dramatísku frásagnaraðferðar varðar veldur skáldsaga Dags heldur ekki vonbrigðum, þar sem sagan sem í hönd fer er vissulega viðburðarík. Að um persónufornafn í fleirtölu sé að ræða í titlinum vekur líka upp spurningar, rökkurbókmenntir þrífast á samspili persóna og togstreitu og Við erum ekki morðingjar snýst öll um samskipti og togstreitu, og jafnvel þótt hér sé ekki hefðbundin glæpafrásögn á ferðinni er hún í öllu falli rökkursaga í þeim skilningi að henni vindur fram í náttmyrkri – og líka raunar hvað það varðar að sektarkennd er miðlægt viðfangsefni. Persónurnar sem fleirtalan í titlinum vísar til leitast við að sannfæra sig um að þær séu ekki morðingjar, sem auðvitað er hugsanlegt að lesa í dálítið yfirfærðum skilningi, mannorðsmorð kemur til að mynda við sögu. Ekki er samt hægt að útiloka að enn ískyggilegri atvik búi í fortíð sögunnar.

Áfallahjálp fyrir tvo

Byggingu skáldsögunnar má lýsa sem dagleiðinni löngu inn í nótt, henni vindur fram á tæpum sólarhring, frá síðeftirmiðdegi og undir morgun næsta dags, og að megninu til er um samtal að ræða milli tveggja einstaklinga sem þekkjast lítið sem ekkert. Aflvaki hins langa samtals er hálfgerð tilviljun þar sem hinn ónefndi sögumaður verksins, kona á þrítugsaldri, kemur heim til sín í húsið þar sem hún leigir herbergi og gengur þar inn á annan leigjanda, Tómas, í miklu og augljósu uppnámi. Í ljós kemur að hann er nýbúinn að fá fregnir af því að faðir hans sé fárveikur, raunar dauðvona, á spítala í Noregi og hann bíður þess einfaldlega að komast út á flugvöll um morguninn til að geta verið við hlið hans. Þau þekkjast ekkert, sögumaðurinn og Tómas, en þegar sögumaður, líkt og kannski almenn kurteisi kveður á um, segist vera til staðar þarfnist hann einhvers, kemur það flatt upp á hana að Tómas skuli umsvifalaust ganga á lagið og reyna að leysa út það sem auðvitað átti bara að vera innistæðulaus kurteisistékki. „Það eru rúmir sex klukkutímar þangað til ég þarf að koma mér“, segir Tómas, „Ég veit að ég get ekki sofnað. Og ég veit að ef ég vaki og hugsa um innyflin í pabba mínum þá missi ég vitið. Ég get ekki verið einn.“ Ókei, segir sögumaður, „ef þú vilt einhvern til að tala við þá veistu af mér“, enn að reyna að draga sig í hlé. En Tómas vill ekki tala við neinn, þvert á móti, „Ef ég tala þá sekk ég bara dýpra í tilhugsunina um pabba“, segir hann. Að þessu búnu stígur lýsandi rödd sögumanns inn í frásögnina, „Tómas horfði biðjandi á mig. Augun urðu risastór í tóftunum. Getur þú ekki talað?“

Það sem Tómas fer fram á með öðrum orðum er að sögumaður, ung kona sem hann þekkir ekki, hafi ofan fyrir honum með einhvers konar afþreyingarmónólóg í sex klukkustundir á meðan hann bíður eftir flugvallarútunni. Þessari stórfurðulegu bón væri auðvitað auðhafnað, raunar er hún uppáþrengjandi og tilætlunarsöm á nærri því glæpsamlegan hátt, en sögumaður hefur sínar ástæður fyrir því að samþykkja. Á henni hvíla mikil þyngsli, sem lesendur hafa fengið nasasjón af á fyrstu síðum bókarinnar. Hún er döpur, þorir vart út úr húsi, og þegar hún fer út verður hún fyrir aðkasti þar sem hún virðist líka vera fræg. Ástæðan er bók sem hún gaf út fyrir nákvæmlega ári síðan, bók sem eyðilagði líf hennar. Í boði Tómasar sér hún ekki stórkostlega gíruga ásókn inn í eigið líf heldur tækifæri til að segja sögu sína manni sem ekki þekkir hana nú þegar, hefur ekki lesið bókina hennar og þekkir ekki viðtökusöguna, einn fárra virðist vera, en kemur þar Noregstenging Tómasar inn, þarna var að finna einu manneskjuna sem „hefði réttar forsendur til að skilja af hverju ég gerði það sem ég gerði“, hugsar sögumaður, og ákveður að slá til. Eina skilyrðið sem sögumaður setur er að Tómas, að sögunni lokinni, dæmi sig, segi sér hvort hún sé góð eða slæm manneskja. Samtalið sem í hönd fer er því á milli dómara og sakbornings.

Að skrifa „karlmannlega“

Ekki verður Dagur sakaður um metnaðarleysi í skáldsögunni, gerð er atlaga að fjölmörgum forvitnilegum viðfangsefnum og sumum hverjum býsna flóknum. Meðal annars veltir bókin vöngum um áhrif þess að fjalla um eigið líf og líf annarra í skáldskap og vandkvæðin sem því geta fylgt í litlu landi eins og Íslandi, þar sem bæði er fyrirliggjandi hneigð til ævisögulegrar túlkunar og oft auðvelt að finna hliðstæður við persónur í skáldsögum. Baksaga sögumanns tekur á erfiðleikum og flækjum hins aðþrengda kvenlega kyngervis í menningu og samfélagi feðraveldisins (lágt sjálfsmat, óraunhæfar kröfur, og bjöguð kynverund eru þar á meðal), og væri þannig kannski hægt að segja að þetta sé skáldsaga um kynferði, kvenmennsku og karlmennsku. Það er svo í tengslum við hið síðarnefnda sem skáldsagan tekur sín djörfustu spor. Sögumaður á að baki eitt raunverulegt og alvöruþrungið ástarsamband, við hinn landsþekkta rithöfund Benedikt, eins konar enfant terrible íslenskra samtímabókmennta. Ímynd Benna út á við er af kaldhömruðum og fjarlægum töffara sem er yfir alla hafinn og hræðist ekkert. Um hann ganga sögur, að hann sé ofbeldismaður, í tengslum við undirheimana, og við hann loðir orðrómur um eiturlyf. En svo kynnumst við honum, og þetta er ferlega næs gæi, tilfinningalega opinn, og með ríka ábyrgðarkennd. Hann kaupir húsgögnin sín í IKEA, hann grætur án þess að skammast sín og er blíður elskhugi, hann er svona dáltið sænski velferðarkarlmaðurinn, vitsmunalegur og listrænn draumabátur. Bókin sem sögumaður skrifaði fjallaði að hluta um hann og eitt af því sem hún gerði var að grafa undan hörðu karlmennskuímyndinni sem Benni tefldi fram í fjölmiðlum. En mikilvægust er sú staðreynd að þótt sögumaður hafi vissulega skrifað um hann á opinskáan hátt þá gerði hún það líka á sambærilegan hátt og karlar hafa alltaf skrifað um konur, öll tillitssemi víkur fyrir svokallaðri sannleikskröfu listarinnar. Þannig skrifaði hún „karlmannlega“ – og hér tek ég fram að orðið „karlmannlega“ er innan gæsalappa, við erum að tala um menningarlega mótuð tengsl við karlmennskuna auðvitað. Skriftir sögumanns voru óheflað en innblásið flæði og hún leiddi ekki hugann að því sem öðrum myndi finnast, hugsaði ekki um afleiðingarnar. Allt eru þetta hlutir sem karlhöfundar hafa átt skilyrðislaust tilkall til. En afleiðingarnar sýna að ekki er sama hver heldur um Makk-lapptoppinn, karl eða kona.

Eins og ég segi, hér er um forvitnilegt efni að ræða og ýmislegt er ágætlega gert. Og bókin er læsileg, ef frá er skilið stirt upphaf þar sem höfundur virðist ætla með handafli en litlu listfengi að þvinga textann inn í ólíkindalega frásagnarframvinduna. Það eru má segja ákveðnir gallar einmitt á henni, framvindunni, sem meina verkinu um að komast nokkurn tíma á það flug sem manni finnst viðfangsefnið verðskulda. Langt er seilst í tilviljunum og innri rökvísi bókarinnar gengur ekki upp, þeir hlutar skáldsögunnar er lúta að Tómasi eru dálítið eins og rispur á geisladiski, allt fer að hökta, hljóðsúpa tekur við af tónlist og það er hér sem sagan bókstaflega brotlendir, oftar en einu sinni. En aðalpersónurnar – sögumaður og Benni – vekja hins vegar upp áhugaverðar spurningar um mörk hinnar „mjúku“ karlmennsku samtíma okkar og þolinmæði gagnvart því að konur stígi fram óheflaðar, jafnvel ölvaðar af eigin orðsnilld, og tjái sig án þess að leita samþykkisstimpils feðraveldisins.