Ferðamönnum sem sækja landið heim fer fækkandi en það þarf ekki að vera neikvætt. Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans, og Sævar Skaptason, stjórnarformaður, eru sammála um að nú hafi fólk í ferðaþjónustu tækifæri til að auka gæði þjónustunnar.

Ásta Kristín og Sævar voru gestir Morgunútvarpsins á Rás 2 og ræddu fækkun ferðamanna og stöðu ferðaþjónustunnar. Árið 2010 komu 500.000 manns til landsins en í fyrra voru ferðamennirnir orðnir 2 milljónir. Fyrstu mánuði ársins voru 11% færri ferðamenn en árið á undan. Ásta Kristín segir að þrátt fyrir fækkunina sé óþarfi að tala um hrun í ferðaþjónustu.

Tækifæri í fækkuninni

Eftir mikinn uppgang síðustu ár sé farið að hægjast um en breytingarnar gætu skilað sér í bættri þjónustu við ferðamenn. „Núna er góður tími til að skoða hvað er hægt að gera betur,“ segir Sævar. Fólk í ferðaþjónustu geti nú einbeitt sér að því að selja betri og meiri þjónustu og finna sérstöðu Íslands. „Við erum svolítið búin að tapa henni,“ segir Sævar. „Það er komin „massatúristaímynd“. Það eru stór verkefni og það þýðir ekki að segja að allt sé að fara á versta veg.“ Hann bendir þó á að það séu vissulega áskoranir fram undan. 

Krónan er áskorun

Ásta Kristín segir að það verði alltaf dýrt að koma til Íslands en það þurfi ekki að vera neikvætt. „Við eigum að auka gæðin. Við eigum að stefna að því að gæðin séu framúrskarandi og þjónustan góð en það er vont ef þetta tvennt fer ekki saman,“ segir Ásta Kristín og Sævar tekur í sama streng.

„Mesta áskorunin í rekstri fyrirtækjanna er krónan. Við höfum fengið ár þar sem gengið hefur hjálpað okkur en við höfum líka fengið ár þar sem það urðu óvæntar breytingar. Þetta er stóra áskorunin,“ segir Sævar. 

Vilja virkja hugvitið

Ásta Kristín segir að það sé mikilvægt að vandað sé til verka í ferðaþjónustu. Árið 2017-2018 var ferðaþjónustan stærri en sjávarútvegur og iðnaður til samans. Mikilvægt sé að unnin sé framtíðarstefnumótun fyrir greinina og Ferðaklasinn hefur tækifæri til að brúa bil á milli stjórnvalda og fyrirtækja, að sögn Ástu. Jafnframt sé leitað leiða til að virkja þá þekkingu sem er til nú þegar og því hefur verið farið af stað með verkefnið Virkjum hugvitið. Markmið verkefnisins er að virkja þekkingu fólks og þróa viðskiptahugmyndir á sviði ferðaþjónustu. Verkefnið er sérstaklega hugsað fyrir þá sem hafa starfað innan ferðaþjónustunnar en eru nú án atvinnu.