Leit að lífvænlegum plánetum gengur vel, segir prófessor við Princeton-háskóla í Bandaríkjunum, sem tekur þátt í stórri alþjóðlegri stjörnufræðiráðstefnu sem nú stendur yfir hér á landi. Hann segir að búið sé að finna nokkrar plánetur sem líkjast jörðinni að einhverju leyti.
Fjölmenn ráðstefna stjörnufræðinga stendur nú yfir í Hörpu og eru þátttakendur um 600. Þeir koma víðs vegar að úr heiminum, þótt flestir séu frá Bandaríkjunum. Viðfangsefni ráðstefnunnar er leitin að hnöttum á brautum um aðrar sólstjörnur, og lífsskilyrðum á sumum þeirra. Joshua Winn, prófessor í stjarneðlisfræði við Princeton háskóla, segir að sérstaklega sé leitað að plánetum sem líkist jörðinni.
„Þetta er eitt helsta viðfangsefni greinarinnar; fjarplánetur. Leitin að plánetum sem ganga um aðrar stjörnur, sérstaklega plánetum sem líkjast jörðinni.“ Winn segir að sú leit gangi vel - í dag sé vitað um 4.000 plánetur á brautum um fjarlægar sólstjörnur.
„Flestar þeirra eru ekki líkar jörðinni. Þær eru ýmist alltof heitar, alltof stórar eða eru á braut um allt öðruvísi stjörnur en sólina. En það eru örfáar sem við teljum nokkuð líkar jörðinni.“
Eldflaugatæknin vandamál
Winn segir að þessar rannsóknir geti hjálpað til við að skilja þær breytingar sem hafa orðið á jörðinni, og að þær tengist óbeint mögulegri offjölgun mannkyns og umhverfismálum.
„Ef við horfum mörg þúsund ár fram í tímann er mögulegt að við getum flúið jörðina og lifað á einhverri annarri plánetu,“ segir Winn. „Í dag búum við ekki yfir þeirri eldflaugatækni sem gæti flutt okkur til annarra stjarna á tíma sem er nálægt því að vera á mannlegum mælikvarða. Í bili sætti ég mig því vel við að leita að plánetunum. Það hlýtur að vera fyrsta skrefið á þeirri afar löngu leið.“
Winn heldur fyrirlestur sem ætlaður er almenningi í Hörpu klukkan korter yfir sex annað kvöld, en yfirskrift hans er „furður fjarlægra sólhverfa“. Auk hans flytur Lisa Kaltenegger, prófessor við Cornell háskóla, fyrirlestur sem kallast „leitin að systurjörð“. Aðgangur að fyrirlestrunum er ókeypis.