„Það er ekki hægt að þjálfa þetta, þetta er alltaf villt,“ segir Sævar Guðjónsson leiðsögumaður, ferðaþjónustubóndi, refa- og hreindýraskytta á Mjóeyri við Eskifjörð, en gráleit tófa hefur gert sig heimakomna á bæ hans í allt sumar.
„Henni finnst voða gaman, er búin að vera hérna í allt sumar að gleðja ferðamennina, og finnst gaman að hitta þá,“ heldur Sævar áfram en Gísli Einarsson tók hús á honum fyrir stundu í sólarhringsútsendingu Landans. „Hún er mjög ljúf, en þetta er alltaf með opinn kjaftinn. En hún bítur nú ekki fast. Það er ekki hægt að þjálfa þessi dýr, nú fer hún að fara til fjalla þegar náttúran kallar.“
Hreindýravertíðinni er nú lokið og Sævar segir hana hafa gengið vel þrátt fyrir að það hafi verið erfitt tíðarfar framan af. Meira en 4000 sækja um leyfi til að veiða hreindýr en rúmlega 1400 er úthlutað. Í seinni tíð eftir að dýraverndunarhreyfingum fór að vaxa ásmegin hefur andstaðan við hreindýraveiðar aukist talsvert. „Auðvitað er það þannig. Menn mega hafa skoðanir á því, það er engin ein skoðun rétt. En við erum bara að nýta stofninn sem var fluttur inn til að nýta hann fyrir bændur. Við erum að reyna með rannsóknum og skipulögðum veiðum að nýta sem best úr þeim stofni.“
Teymin fimm eru enn á flakki landshorna á milli í beinni útsendingu á RÚV 2 og vefnum í sólarhringsútsendingu 300. þáttar Landans. Allt samfélagið er undir í útsendingunni; atvinnulíf, félagslíf, mannlíf og reynt að sýna sem allra mest af því sem drífur á daga landans á einum sólarhring. Landinn lítur við á vinnustöðum, fer út í búð, inn í eldhús hjá fólki, í fjós og víðar. Að auki fá áhorfendur að skyggnast á bak við tjöldin í sjálfri útsendingunni sem lýkur í kvöld klukkan 20:15.