Það eru til sjö tegundir plasts sem allar hafa mismunandi eiginleika og notagildi. Á Íslandi fer innan við 13 prósent alls umbúðaplasts sem fellur til á Íslandi til endurvinnslu.

Íslendingar verða sífellt meðvitaðri um flokkun rusls sem fellur til á heimilinu. Eitt af því sem við flokkum frá öðru rusli er plast. Það vita þeir sem flokka plast að það hreinlega hrannast upp.

En plast er ekki bara plast. Mismunandi gerðir plasts endurvinnast ekki saman, jafnvel þó neytandinn hendi öllu í sömu tunnuna þegar umbúðum hefur verið svipt af neysluvörum. Áður en plastið er selt til endurvinnslu erlendis er það flokkað og aðgreint frá mismunandi tegundum.

Mismunandi eiginleikar plastsins geta verið hitaþol, teygni, mótun og þéttni. Sem dæmi þá er PET-plast nær eingöngu notað utan um kolsýrða drykki því helstu eiginleikar þess eru að það heldur gosinu vel og hleypir ekki lofti inn. Efnalekt þess er líka frekar lítil í samanburði við aðrar gerðir plasts.

Sjö gerðir plasts eru eftirtaldar

1. flokkur – PET (PETE)

Plast í þessum flokki er notað í gosflöskur, vatnsflöskur og einnota djúsglös.

2. flokkur – HDPE

Plastið í plastbrúsum fyrir sjampó, djús og þessháttar. Þetta plast er harðara en í PET-plasti.

3. flokkur – PVC

Plaströr skólplagna og regnvatnsrennur eru yfirleitt unnar úr PVC plasti. Það eru líka leikföng, heilbrigðistengdir hlutir eins og blóðpokar, túbur og lyfjaspjöld.

4. flokkur – LDPE

Eiginleikar þessarar gerðar plasts er að það er mjög létt og meðfærilegt. Innkaupapokar, matvælapakkningar og flöskur sem eru gerðar til þess að sprauta úr er unnið úr þessu plasti. Plasthringirnir í dósakippunum eru líka LDPE.

5. flokkur – PP

Íhlutir í bíla, bleyjur, hitabrúsar og þess háttar er yfirleitt unnið úr PP-plasti. Þetta plast er líka notað í umbúðir utan um matvæli.

6. flokkur – PS

Allt frauðplast sem við notum í einnota matarbakka, kaffibolla og ísbox fellur í þennan flokk. Frauðplastið sem ver nýja sjónvarpið okkar er líka úr polystyrene-plasti.

7. flokkur – Annað

Aðrar gerðir plasts og plastblöndur úr hinum flokkunum sex falla í þennan síðasta flokk. Þetta plast er verulega erfitt að endurvinna, enda getur reynst ómögulegt að aðskilja mismunandi efni til endurvinnslu.

Á flokkunum skuluð þið þekkja þá

Með því að þekkja flokkana er auðveldara að sneiða hjá því plasti sem erfitt er að endurvinna. Plasttýpur 1 og 2 eru helst endurunnar en það er vegna þess að sorphirðufyrirtækin sem taka við rusli frá heimilum, skólum og vinnustöðum flokka plastið og selja til útlanda.

Magn umbúðaplastúrgangs á Íslandi er um 13.000 tonn á ári, sem jafngildir um 40 kílóum á hvern íbúa. Endurvinnsla á umbúðaplasti er innan við þrettán prósent hér á landi, en það eru þó ekki til heildartölur fyrir annað plast sem leynist í raftækjum, leikföngum eða húsgögnum.

Til að framleiða plast er að mestu leyti notuð olía og jarðgas, en einnig efni eins og kol, sellulósi, gas og salt. Þess er orkugildi plastsins nokkuð mikið og það er víða brennt til orkuvinnslu. Mikið af því plasti sem Íslendingar skila til endurvinnslu er brennt til orkuvinnslu erlendis. Eitthvað er þó endurunnið og verður að öðrum plastvörum.