Íslendingar eru ekki jafn jákvæðir gagnvart því þegar Pólverjar, Litháar og Taílendingar tala íslensku með erlendum hreim og þegar Þjóðverjar gera það.
„Ég er að rannsaka viðhorf Íslendinga til erlends hreims eða óhefðbundinnar málnotkunnar innflytjenda,“ segir Stefanie Bade, doktorsnemi í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, sem rannsakar viðhorf landsmanna til óhefðbundinnar málnotkunar innflytjenda.
Fyrstu niðurstöður Stefanie benda til þess að Íslendingar eru misjafnlega umburðarlyndir gagnvart hreimnum eftir því hvaðan innflytjandinn er. „Fólk hugsar aðeins öðru vísi um þann sem kemur kannski frá Taílandi eða Póllandi eða Þýskalandi,“ segir Stefanie. „Og það kemur kannski pínu stéttarmun líka milli útlendinga.“
Þannig sé viðhorf gagnvart hreimi Þjóðverja nokkuð jákvætt en ekki endilega gagnvart hreim í máli Pólverja, Litháa eða Taílendinga. „Þetta er eiginlega eitthvað sem Íslendingar tala um í einkarými, gera kannski pínu grín að fólki.“
Stefanie segir að viðhorf til hreims geti haft áhrif á atvinnu- og tekjumöguleika þess sem með hreimnum talar.