Hóffífillinn hefur numið land í Surtsey við misjafna lukku eftirlitsmanna sem fylgjast með landnámi tegunda í eyjunni. Surtsey hefur minnkað um helming frá því að fæðingargosi hennar lauk, en að sögn eftirlitsmanns mun eyjan ekki hverfa alveg.

Surtsey varð til árið 1963. Hún var fyrst 2,7 ferkílómetrar að flatarmáli en síðan þá hafa sjór og vindar sorfið mikið af henni að sögn Erlings Ólafssonar sem heimsækir eyjuna einu sinni á ári.

„Hún hefur minnkað um helming, hvorki meira né minna. Maður er oft spurður að því hvort hún komi til með að hverfa alveg. Það er einfalt svar við því: Horfið á hinar eyjarnar, úteyjar Vestmannaeyja. Þær voru áður Surtseyjar,“ segir Erling.

Askan sem kom upp í Surtseyjargosinu hefur í áranna rás harðnað og myndað móberg. Þetta móberg er harðara en hraun sem kom upp í gosinu og lagðist yfir öskuna sem nokkurs konar verndarhjúpur. Þar með fékk askan tíma til að harðna og verða að móbergi.

„Hraunið er að fara. Það hrinur úr því mjög mikið á hverju ári. Þannig að það á eftir að verða seinna meir bara einhver hraunbreiða efst á þessum móbergsstapa,“ segir Erling.

Erling er skordýrafræðingur og hefur árum saman farið í árlegan leiðangur í Surtsey til að fylgjast með landnámi jurta og dýra í eyjunni. Samtals hafa fundist 330 tegundir af smádýrum í eyjunni og 76 plöntur frá því eyjan stakkst upp úr hafinu. Sumar hafa fundist í eyjunni en horfið þaðan aftur skömmu síðar, aðrar hafa numið land til langframa.

Erling sagði frá leiðangrinum í ár á Morgunvaktinni á Rás 1. Í ár fundust þrjár nýjar tegundir. Tvær þeirra voru skordýrin langleggur sem er áttfætla og hvannuxi sem er bjöllu tegund. Þriðja tegundin var úr jurtaríkinu og vakti misjafna lukku leiðangursmanna þegar þeir römbuðu á hana.

„Það er hóffífill. Það þekkja hana allir sem illgresi í kringum garðana sína. Það má nú segja að við erum svona miskátir með tegundir sem við finnum. Þetta er kannski ekki skemmtilegasta tegundin. En þetta er planta. Hún er komin, af sjálfsdáðum,“ segir Erling.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Erling í spilaranum hér að ofan.