Mexíkóskir foreldrar horfinna barna nýttu mæðradaginn, sem haldinn var hátíðlegur í gær, til þess að mótmæla aðgerðarleysi stjórnvalda við að leita barna þeirra eða hafa uppi á þeim sem rændu börnunum.

Mótmælin voru haldin í 16 borgum. Þar af gengu um tvö þúsund foreldrar í höfuðborginni. Mótmælendur lýstu reiði sinni og þjáningu vgena þeirra þúsunda leynilegu grafreita sem fundist hafa víðs vegar í landinu, og vegna þeirra tuga þúsunda horfnu einstaklinga sem aldrei hafa fundist. Mæður héldu á stórum myndum af horfnum börnum sínum, og kölluðu að vegfarendum að þetta gæti allt eins orðið þeirra barn. Forsetinn Andres Manuel Lopez Obrador færði mæðrum kveðju í tilefni dagsins á blaðamannafundi, og færði þeim mæðrum sem leita horfinna barna sinna sérstaka kveðju.

Yfir 40 þúsund einstaklingar eru horfnir í Mexíkó. Mikil ofbeldisalda hefur riðið yfir landið undanfarin ár vegna valdabaráttu eiturlyfjagengja víða um landið. Gagnrýnendur Lopez forseta saka hann um að hafa mistekist að efna loforð sitt um að lægja ofbeldisöldurnar. Núverandi ár gæti orðið það allra blóðugasta í sögu Mexíkó, en nærri níu þúsund einstaklingar voru myrtir á fyrstu þremur mánuðum ársins.

AFP nefnir lýsandi dæmi um ástandið í Mexíkó. Í gær, á sjálfan mæðradaginn, réðust menn á rútu með fangaverði innanborðs. Fangaverðirnir voru á leið aftur til vinnu eftir að hafa heimsótt mæður sínar í bænum Puente de Ixtla. Fimm þeirra voru myrtir og þrír særðir. Líkin voru skilin eftir á jörðinni fyrir framan minnismerki um mæður.