Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir að heildarlán Vegagerðarinnar fyrir þeim vegaframkvæmdum sem settar eru í forgang verði minnst 50 til 60 milljarðar króna. Stefnt er að því að valdar vegaframkvæmdir verði fjármagnaðar með lánsfé og lánin borguð með veggjöldum að loknum verktíma sem yrði í fyrsta lagi 2024.

Starfshópur samgönguráðherra um fjármögnun samgöngukerfisins hefur verið að störfum um nokkurt skeið og eiga niðurstöður hans að liggja fyrir um miðjan janúar. Hópurinn hefur það hlutverk að leggja til hvernig gjaldtöku og vegatollum verður háttað.

Þær framkvæmdir sem Sigurður Ingi sér fyrir sér að fái forgang eru á leiðum inn og út af höfuðborgarsvæðinu. „Við höfum verið að horfa á þessa ása; Reykjanesbrautin inn í höfuðborgina, Suðurlandsvegurinn inn í borgina, Vesturlandsvegur inn í borgina,“ segir Sigurður Ingi. „Klára þá tvöföldun Reykjanesbrautarinnar og aðskilja akstursstefnur austur fyrir Selfoss og upp í Borgarnes.“

Lánin greidd með veggjöldunum

Við afgreiðslu samgönguáætlunar er meiningin að ríkisstjórnin fái heimild til að stofna félag sem hafi þann eina tilgang að safna fé fyrir tilteknum framkvæmdum hringinn í kringum landið þó áherslan verði mest á leiðum umhverfis höfuðborgina, segir Sigurður Ingi.

Fénu eigi að safna saman í sjóð sem helst eigi að vera í vörslu Vegagerðarinnar. Fé úr sjóðnum eigi eingöngu að fara í þessar tilteknu framkvæmdir.

„Tilgangurinn er einfaldlega að hafa þessa fjármögnun eins ódýra og skilvirka og hægt er,“ segir Sigurður Ingi. Vegagerðin geti með þessum sjóði greitt niður framkvæmdalán. „Þegar framkvæmdunum er svo lokið þá hefjist gjaldtakan og greiðslan á láninu verði greidd með þessu gjaldtökufé.“

Spurður hverjir muni lána peninga til þessara framkvæmda segir Sigurður Ingi að það sé óútfært. Fara þurfi vel yfir það hvernig þessu verði háttað. „Ríkinu býðst mjög hagkvæm lántaka,“ segir hann. „Síðan hafa lífeyrissjóðir boðið sig fram til að koma inn í þetta og jafnvel norrænir bankar, eins og Norræni fjárfestingarbankinn og mun fleiri.“

„Það er allt opið í þeim efnum. Fyrst og fremst er leitað að eins hagkvæmu og skynsömu fjármagni í þetta og hægt er af því að við þurfum líka að horfa á efnahagslegu áhrifin og áhrif á fjárreiður ríkisins. Þetta er útfærsla sem mun taka einhverja mánuði á nýju ári,“ segir Sigurður Ingi.

Þurfum öll að nota vegakerfið einhvern tíma

Starfshópur ráðherra um fjármögnun samgöngukerfisins hefur tvíþættan tilgang að sögn Sigurðar Inga. Annars vegar að finna réttu leiðina við fjármögnun og flýtingu verkefna, og hins vegar að leysa fjármögnunarvanda Vegagerðarinnar til lengri tíma. Víst er að með orkuskiptum í vegasamgöngum muni ríkið verða af miklum tekjum í formi gjalda á eldsneyti og bifreiðir. „Í orkuskiptunum munum við hreinlega missa mikið af tekjunum sem hafa runnið til Vegagerðarinnar. Það eru bensín- og olíugjald. Þannig að til lengri tíma þurfum við að horfa á breytta gjaldtöku sem verður þá meiri afnot.“

Sigurður Ingi segir að ekki sé búið að ákveða hvernig gjaldtökunni verði háttað en líklega verði einhvers konar myndavélagjaldtaka notuð, þar sem rafrænn búnaður taki myndir af bílum sem aka hjá gjaldhliðum. Fleiri kostir séu einnig til skoðunar hjá starfshópnum.

„Eitt af því sem við þurfum að skilgreina mjög vel er hvort það halli á einhverja hópa, tiltekin landsvæði eða einhverja sem keyra meira en aðrir,“ segir Sigurður Ingi. „Auðvitað þarf að skoða þessa skiptingu. Ég held reyndar ef við horfum á vegakerfið í heild sinni og erum að sjá fyrir okkur jafnræði hringinn í kringum landið, þá erum við einfaldlega 350.000 manna þjóð og eigum þetta vegakerfi saman og munum öll fjármagna það saman því við munum öll nota það einhvern tíma.“

Undirbúningi ljúki á næsta ári

Samkvæmt áætlunum Sigurðar Inga er gert ráð fyrir að fyrstu framkvæmdir sem fjármagnaðar yrðu með þessum hætti geti hafist árið 2020. „Við myndum nota árið 2019 í að klára útfærslurnar og frumvarp sem var áætlað að kæmi fyrir þingið í mars. Þessu yrði þá lokið á þinginu og í kjölfarið gætu menn farið og leitað að fjármagni.“

„Það hafa reyndar margir boðist til þess að leggja til fjármagn í þetta. Þetta er talið mjög arðsöm aðgerð,“ segir Sigurður Ingi. „Hún er auðvitað sett fram á þeim grundvelli að við erum að fara að stórbæta umferðaröryggi. Tjón á Íslandi er því miður metið 50 milljarðar vegna bílslysa á hverju ári. Það hefur verið sýnt fram á að þar sem hægt er að aðskilja akstursstefnur, sé hægt að minnka tjónið um helming. Þannig að ávinningurinn yrði þá 20-25 milljarðar, því umferðarþunginn er hvað mestur á þessum þremur ásum sem ég nefndi. Þar fyrir utan er allt það tilfinninga- og sorgartjón sem er um að ræða þegar um banaslys eða alvarleg slys er að ræða.“

Sigurður Ingi segir að hægt sé að ljúka framkvæmdum á næstu fjórum til fimm árum. „Síðan eru tilteknar framkvæmdir úti á landi sem menn hafa líka séð fyrir sér, hugsanlega með blandaðri fjármögnun, að hluta til með opinberu fé. Eins og til dæmis Hornafjarðarfljót og Öxi þar sem að menn komast aðra leið. Þá myndu menn spara sér umtalsvert með því að fara þessa nýju leið, það yrði bæði loftslagsávinningur og hagkvæmara fyrir bíleigendur.“