33 hafa fundist látnir í teiknimyndaverinu í Kýótó í Japan sem eyðilagðist í eldi í nótt. Brennuvargur braust inn í bygginguna sem er þriggja hæða, dreifði þar bensíni og kveikti í.
Slökkviliði var tilkynnt um eldinn um klukkan hálf ellefu í morgun að staðartíma. Sjónarvottar segja að háværar sprengingar hafa heyrst til að byrja með svo brotist út mikill eldur og húsið hafi verið alelda á svipstundu. Talið er að um sjötíu manns hafi verið í húsinu þegar eldurinn var kveiktur. Slökkvilið staðfesti nú eftir hádegið að minnst 33 hefðu látið lífið. Tugir voru flutt á sjúkrahús og er sumir þeirra þungt haldnir.
Brennuvargurinn er 41 árs en annars er lítið vitað um hann. Hann var hvorki núverandi né fyrrverandi starfsmaður en vitni segja að hann hafi greinilega verið ósáttur við þá sem þar unnu. Hann sást hlaupa frá húsinu eftir að eldurinn kviknaði og heyrðist kalla að þeir hefðu stolið hugmyndum hans. Nokkrir eltu manninn út en hann hrasaði á leið sinni að lestarstöð í nágrenninu, slasaðist og var síðan fluttur á sjúkrahús.
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, vottaði fjölskyldum fórnarlambanna virðingu sína í morgun og sagði atvikið skelfilegt. Aðdáendur myndanna sem framleiddar voru í teiknimyndaverinu hafa vottað virðingu sína í dag en japanskar teiknimyndir njóta mikilla vinsælda um allan heim.