Formaður Almannaheilla segir að það virðist vera minna um erfðagjafir á Íslandi en í nágrannalöndunum. Góðgerðafélög segja að skattalöggjöf mætti vera hagfelldari styrktarsjóðum. Í erfðagjöfum felst það að ánafna hluta af eigum sínum eftir sinn dag til málefnis sem viðkomandi er annt um. Hér á landi hefur verið tiltölulega lítið um erfðagjafir en góðgerðafélög fá reglulega spurningar um valkostinn. Sjö góðgerðarfélög stóðu fyrir málþingi um erfðagjafir í Iðnó í dag á alþjóðlegum degi erfðagjafa.
„Það virðist vera eins og erfðagjafir séu ekki svo algengar á Íslandi. Við höfum ekki nákvæmar upplýsingar um það en við höfum upplýsingar um nágrannalöndin okkar og þar, til dæmis í Bretlandi, þar virðist vera að einn fjórði þeirra sem skrifar erfðaskrá gefur erfðagjafir. Það tilnefnir í erfðaskránni að það skuli einhver hluti vera gefinn í góð málefni,“ segir Ketill B. Magnússon, formaður Almannaheilla.
Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, segir erfðagjafir mjög mikils virði í starfi félagsins. „Við fáum reglulega fyrirspurnir því fólk er raunverulega mjög tilbúið til að gefa til góðra málefna og vill auðvitað heyra hvernig best sé að ganga frá þeim málum. Krabbameinsfélagið fær reglulega erfðagjafir. Ég myndi kannski ekki segja margar en þær koma reglulega,“ segir hún.
Háskóli Íslands fær af og til tugi milljóna í erfðagjafir. Eignir styrktarsjóða Háskóla Íslands nema tæpum sex milljörðum. „Í mörgum tilfellum er um tiltölulegar háar fjárhæðir að ræða þannig að það er afskaplega kærkomið og hefur runnið til þess að styrkja ýmis konar starf. Annað hvort er þetta nýtt strax eða það er notað til að byggja upp sjóð sem síðan veitir styrki til einhvers starfs sem tengist Háskólanum árum eða jafnvel áratugum saman,“ segir hann.
Þá sagði Gylfi að íslensk skattalöggjöf mætti vera hagfelldari styrktarsjóðum líkt og í nágrannalöndunum. „Fjármagnstekjuskatturinn er mjög íþyngjandi fyrir sjóðina og jafnframt er slæmt að það skuli ekki vera einhvers konar skattfrádráttur sem einstaklingar geta fengið vegna gjafa til góðgerðamála eða stofnana eins og Háskóla Íslands. Það er algengt í nágrannalöndunum og er mjög hvetjandi,“ segir Gylfi.