Yfir hundrað hafa látist og meira en milljón þurft að flýja heimili sín undan flóðum og aurskriðum í nokkrum Asíuríkjum. Minnst tveir eru látnir og um fjörutíu saknað eftir að hús hrundi í borginni Mumbai á Indlandi í dag.

Gríðarleg úrkoma ógnar öryggi um sex milljóna manna í Pakistan, Nepal, Indlandi og Bangladess. 

Monsúntímabilið stendur nú sem hæst, það varir iðulega frá júní og fram í september, með tilheyrandi flóðum og aurskriðum, sem skilja eftir sig mikla eyðileggingu ár hvert. Einna verst er ástandið í Nepal þar sem hátt í sjötíu eru látin og minnst þrjátíu til viðbótar er enn saknað. 

Í morgun hrundi fjögurra hæða í hús í Mumbai á Indlandi. Minnst fjörutíu manns voru inni í húsinu. Björgunarstarf gekk erfiðlega þar sem húsið stóð við þrönga götu í borginni. 

Á þriðja hundrað aurskriður hafa fallið á flóttamannabúðir Róhingja sem flúðu undan ofsóknum hersins í Mjanmar til Bangladess. Sjálfboðaliðar vinna nú að því að koma vistum til fólksins. 

Hjálparsamtök óttast útbreiðslu sjúkdóma og talsmaður alþjóðasambands Rauða krossins í Asíu segir að ástandið versni með degi hverjum. Erfitt sé að ná til allra sem þurfi aðstoð, sum svæði séu umlukin vatni og því ekki greið leið fyrir hjálparstarfsmenn.