Milljónatjón varð í höfninni í Vogum á Vatnsleysuströnd í síðustu viku, þegar 70 tonna bátur brann til kaldra kola. Bátshræið var híft af hafsbotni á þriðjudaginn. Lögregla rannsakar eldsupptök.

Trébáturinn Gulltoppur GK brann og sökk í höfninni í Vogum á Vatnsleysuströnd aðfaranótt þriðjudags í síðustu viku. Gulltoppur var farþegabátur úr eik, og um 70 brúttótonn. Fulltrúar frá Köfunarþjónustunni, í samstarfi við tryggingafélag og lögregluna, hífðu bátinn, eða það sem er eftir af honum, af hafsbotni á þriðjudaginn. 

Þetta er töluvert tjón sem hefur orðið hérna, ekki satt?

„Jú. Þetta er töluvert tjón,“ segir Vignir Friðbjörnsson, forstöðumaður umhverfis og eigna hjá sveitarfélaginu Vogum.

Og það er ekki bara á skipinu heldur á bryggjunni líka?

„Já það er bæði rafmagnstjón, krani og á bryggjunni sjálfri.“

Og líklegt að það hlaupi á milljónum?

„Já mjög líklegt.“

Í geymslu

Vignir segir að þettta eigi þó ekki að hafa áhrif á starfsemi í höfninni. Aðgerðin á þriðjudaginn hafi gengið mjög vel, en óttast hafi verið að báturinn brotnaði í tvennt þegar hann var hífður. Til þess kom þó ekki. Þá fór lítil olía í sjóinn, en notaðar voru girðingar til að koma í veg fyrir að hún dreifðist. Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar nú eldsupptök.

Var rafmagn tengt við skipið?

„Já það var hitablásari og lensidæla.“

Og hafði það verið lengi?

„Já síðan í vor,“ segir Vignir.

Gulltoppur hafði ekki verið í notkun síðan í vor og hafði verið í geymslu í höfninni.