Leiga, viðhald og rekstur sjúkraskrárkerfisins Sögu kostar ríkið yfir tvö hundruð milljónir króna á ári. Landspítalinn leggur áherslu á þróun annars kerfis. Teymisstjóri hjá Landlækni segir að gott væri ef embættin ynnu betur saman.
Hugbúnaðarkerfið Saga heldur utan um rafræna sjúkraskrá á Íslandi. Forritið er notað á öllum helstu heilbrigðisstofnunum landsins. Upplýsingatæknifyrirtækið Origo á hugbúnaðinn og selur stofnunum aðgang að honum.
Í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Smára McCarthy þingmanns Pírata kemur fram að samanlagður kostnaður heilsugæslunnar vegna Sögu séu 3,2 milljarðar á 22 árum, án þess að tekið sé tillit til verðlagsbreytinga.
Deildir Landspítalans tóku Sögu-kerfið ekki allar upp á sama tíma. Því liggur ekki fyrir hver kostnaður spítalans vegna Sögu er á sjö ára tímabili til ársins 2004. Í svarinu við fyrirspurn Smára segir að áætlar kostnaður síðan þá hafi verið 1,1 milljarður.
„Ég held að þessi tala sé aðeins of mikil einföldun. Það er látið eins og við séum ekkert að gera annað. Eins og við séum bara að þróa Sögu. Við erum að þróa ýmsar aðrar lausnir,“ segir Ingi Steinar Ingason teymisstjóri rafrænna heilbrigðislausna hjá embætti landlæknis.
Stefna Landspítalans er að leggja áherslu á þróun Heilsugáttar sem er miðlægt kerfi Landspítala. En landlæknisembættið leggur áherslu á Sögu. Ingi Steinar segir að það skýrist af mismunandi áherslum innan heilbrigðiskerfisins.
„Það væri gott ef við næðum að vinna betur saman. Ef þú færir á heilsugæslustöð þá eru ekki sömu þarfir þar eins og inn á bráðamóttöku eða á Landspítalanum. Þannig að það er eðlilegt að þeir séu að þróa lausn sem hentar vel fyrir þeirra starfsemi,“ segir Ingi Steinar.
Á síðasta ári var fjárveiting til uppbyggingar rafrænnar sjúkrarskrár aukin um 200 milljónir á ári sem hluti af þriggja ára átaksverkefni.
„Það er ýmislegt í Sögukerfinu sem þarf að taka til endurskoðunar. Sumt er orðið mjög gamalt. Það hefur verið settur ótrúlega lítill peningur í rafræna sjúkraskrá frá því að menn fóru að tala um rafrænar lausnir fyrir heilbrigðisþjónustuna,“ segir Ingi Steinar jafnframt.
Fréttin hefur verið uppfærð með viðtali við Inga Steinar.