Kúabændur samþykktu í dag endurskoðun nautgripahluta búvörusamnings. Töluverð ólga hefur verið meðal bænda vegna málsins enda miklir hagsmunir í húfi.
Samningurinn var samþykktur með afgerandi meirihluta eða 76 prósent þeirra sem tóku afstöðu. Atkvæðagreiðslan átti að hefjast 20. nóvember en var frestað um viku eftir skrifleg mótmæli 340 bænda.
Reksturinn þarf að standa undir kvótanum
Á Hjartarstöðum, skammt utan við Egilsstaði, býr Halldór Sigurðsson með 80 kýr. Hann telur mikilvægt að verði sé haldið niðri, nóg annað þurfi ungir bændur að kaupa.
„Sko jörðin kostar peninga, byggingarnar kosta peninga, gripirnir kosta peninga, vélarnar, ræktunin, girðingar og svo kvótinn sem er í rauninni bara huglæg verðmæti. Þannig að það er alveg spurning hvað er hægt að bæta við fyrir kvóta. Kvótinn er réttur til að framleiða fyrir innanlandsmarkað.“
Og hvað á að borga mikið fyrir það?
„Reksturinn þarf að standa undir því.“ segir Halldór.
Arnar Árnason, formaður Landssambands kúabænda segir að samingurinn sé vel unninn og í góðu samráði við grasrótina.
„Við erum í rauninni að framfylgja vilja bænda með þessum samningi. Menn hafa haft áhyggjur að því að kvótaverð fari upp í samningnum núna þegar við endurvekjum í rauninni kvótakerfið, það er ástæðulaust að hafa þær áhyggjur vegna þess að í samningnum eru skýr ákvæði þar sem að framkvæmdarnefnd búvörusamninga getur gert tillögu um hámarkverð á markaði.“ segir Arnar.
Undirstrika byggðarsjónarmið
Áhyggjur bænda snerust ekki aðeins um kvótann. Hjónin Laufey Bjarnadóttir og Þröstur Aðalbjarnarson eru með fimmtíu kýr á bænum Stakkhamri í Eyja- og Miklaholtshreppi. Þau segja mikilvægt að undirstrika byggðarsjónarmið í samningnum.
„Það svæði sem við erum á hér, Snæfellsnes, þetta er jaðarsvæði. Og við getum alveg sagt það að Vesturland í heild sinni er jaðarsvæði. Það er mjög brothætt svæði í þessari framleiðslu. Þannig að það að það sé ekki tekið svolítið á þessari byggðarstefnu inni í þessu samkomulagi þykir okkur miður að það hafi ekki verið reynt að passa upp á þessi sjónarmið. Þótt að festa verð á greiðslumarki passi pínulítið upp á það en þá gerir það samt ekki.“