Bráðabirgðaniðurstöður krufningar á ferðamanni sem lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík sýnir að hann var með lungnabólgu. Því eru miklar líkur á að maðurinn hafi látist af völdum COVID-19. Þetta sagði Alma Möller landlæknir á upplýsingafundir almannavarna og landlæknisembættisins í dag. Hún tók þó fram að um fyrstu greiningu væri að ræða og endanleg niðurstaða krufningar lægi ekki fyrir.

„Í ljós kom lungnabólga þannig að það eru miklar líkur á því að maðurinn hafi látist af völdum COVID-19 en einkennin voru samt mjög ódæmigerð,“ sagði Alma.

Heilbrigðisyfirvöld greindu frá því í fyrradag að erlendur ferðamaður sem lést af völdum alvarlegra veikinda á mánudag hefði greinst með COVID-19. Þá var ekki ljóst hvort að hann hefði látist af völdum sjúkdómsins eða af öðrum sökum.

Alma sagðist hafa fengið samþykki bæði aðstandenda hins látna og þeirra sem vinna að greiningu á andláti mannsins fyrir því að greina frá þessum bráðabirgðaniðurstöðum.

20 starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Húsavík voru settir í sóttkví eftir að ljóst varð að maðurinn var smitaður af COVID-19. Einnig voru tveir lögreglumenn settir í sóttkví.