Hvað gerir hús að húsaskjóli og hvað þarf til lífsbjargar? Þetta eru undirliggjandi spurningar í riti heitir Híbýli fátæktar: Húsnæði og veraldleg gæði fátæks fólks á 19. og fram á 20. öld, eftir þau Finn Jónasson, Sólveigu Ólafsdóttur og Sigurð Gylfa Magnússon. Höfundarnir vilja slá á það sem þeim þykir vera eins konar „fátæktarglýja“ þegar Íslendingar hugsa um líf alþýðufólks í fortíðinni.

„Við finnum dálítið fyrir „rómantíseringu“ á fortíðinni og þeirri hörmulegu aðstæðum sem íslenska þjóðin bjó við holt og bolt fyrir ekki svo löngu síðan. Þarna grípum við niður á tveimur stöðum, í Reykjavík og Hafnarfirði og ræðum almennt um fátækt frá ýmsum hliðum á þessu tímabili,“ segir Sólveig Ólafsdóttir sagnfræðingur sem að skrifar sinn hlut bókarinnar út frá lífsbaráttunni í Hafnarfirði árið 1902. 

Þjóð í áfalli

„Maður gerir sér grein fyrir því að á þessum tíma, einmitt um aldamótin 1900, var íslenska þjóðin kannski bara nokkuð „traumatíseruð“. Áratugirnir þar á undan höfðu verið mjög erfiðir og það var ekki út af engu sem fólk fór í stórum hópum til Vesturheims. Samt er fólk líka að flytja sig til innanlands í leit að betra lífi. Fólk kemur sér til dæmis fyrir í hrauninu í Hafnarfirði sem var auðvitað hrjóstrugt og erfitt þrátt fyrir að okkur finnist það fallegt í dag.“

Kona dettur af himnum

Sólveig segist hugsa sitt framlag til bókarinnar eftir ákveðnum forsendum. „Ég er bara konan sem dett niður úr himninum í Hafnarfirði árið 1902. Ástæðurnar fyrir árinu eru manntalið sem gert var árið áður en á sama tíma var verið að teikna fallegt kort af bænum, sem var hluti af herforingjaráðs kortunum. Þetta kort er í þannig skala að þú getur í rauninni gengið svolítið milli húsa í bænum og áttað þig á því hver bjó hvar. Maður fær sterka tilfinningu fyrir því hvernig landslagið var og hvernig fólk var að reyna að koma sér fyrir á þessum stað einmitt á þessum tíma.“

Raddir alþýðufólks

Sólveig og Finnur skoða í sínum köflum það hvernig fólk, sem leitaði eftir liðsinni opinberra aðila, reyndi að gera grein fyrir aðstæðum sínum í erindum sem þau sendu. Hreppsstjórnir höfðu vissulega miklar áhyggjur af því að fá fólk „á hreppinn“ og vissulega á margt í bókinni skírskotun í samtíma okkar, nú þegar húsnæðismál eru rædd og kallað er eftir ódýru húsnæði þeirra sem að verkin vinna. 

„Fjórði hlutin í þessari bók er ekki texti heldur myndir,“ bendir Sólveig á. „Þær tók Sigurður Guttormsson, bankastarfsmaður frá Vestmannaeyjum á sínum tíma og gaf mikið safn sitt af slíkum myndum til Alþýðusambands Íslands í kringum 1960 með þeirri áskorun að sambandið gerði átak í húsnæðismálum alþýðufólks. Þessi bók okkar núna er styrkt af Alþýðusambandi Íslands og okkur finnst mikilvægt að gleyma ekki þessari fortíð og eins að reyna að forðast það að „rómantísera“ hana.“

Viðtalið við Sólveigu má heyra í heild hér að ofan. Háskólaútgáfan gefur bókina út. Bókin er hluti af ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar  og er 24. bindið í röðinni.