Slökkviliðsmenn hafa þurft að skjótast með vatn til bænda svo þeir geti brynnt kúnum. Laxveiðimenn hafa skriðið með stangirnar að bakkanum til að styggja ekki lax í vatnslitlum ám. Sveitarfélög hafa mælst til þess að íbúar spari vatn og sums staðar hafa vatnsból tæmst. Sandfok af hálendinu hefur spillt skyggni á Suðurlandi. Ríkislögreglustjóri lýsti yfir óvissustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum og neistar frá flugeldum kveiktu í skraufþurrum gróðri á blómstrandi dögum í Hveragerði.
Áður komið þurrkaskeið
Allt tengist þetta þurrkatíðinni sem hefur verið á Suður og Vesturlandi í mestallt sumar. Spegillinn spurði Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðing, hvort þurrkurinn væri fordæmalaus. „Það verður nú fróðlegt að skoða það, það verður gert í lok sumarsins, en ég held nú ekki. Við munum eftir miklum þurrkum hérna suðvestan- og vestanlands 2010 og 2007 og svo einhvern tímann fyrr. Vissulega er þetta þó heilt yfir, alveg frá því í maí, mikið þurrkatímabil hérna Vestanlands.“
Í fimm vikur frá miðjum maí og næstum út júní kom ekki deigur dropi úr lofti, var það ekki þannig nokkuð víða? „Jú, allavega í Stykkishólmi þar sem hefur verið mælt lengi, það var lengsti samfelldi þurrkur þar í sögu mælinga. Hann er ekki eini mælikvarðinn en hann er samt ákveðin vísbending um þessa þurrka sem hafa verið hérna vestanlands.“
Neikvæður vísir í næstum allt sumar
En hvað veldur þessu? „Það er auðvitað afbrigðilegur gangur veðurkerfanna hérna við norður Atlantshafið. Það eru til ýmsir vísar sem mæla slíkt. Einn sem er okkur nærtækur er svokallaður Norður-Atlantshafsvísir sem í sinni einföldustu mynd mælis styrk vestanáttarinnar á hafsvæðinnu á milli Íslands og Asóreyja. Þegar hann er jákvæður er mikil vestanátt og því fylgir þá úrkoma um sunnan- og vestanvert landið en hann er búinn að vera í neikvæðum fasa alveg frá því í maíbyrjun flesta daga sumarsins með örfáum undantekningum. Við það hefur verið ríkjandi hér vindur á milli Austurs og Norður, hæð yfir Grænlandi og allt umhverfi verið mjög þurrt. Hins vegar verður þetta til þess að það rignir dálítið á Norðausturlandi og sérstaklega hefur rignt mikið staðbundið frá norðanverðum Austfjörðum og yfir á Langanesströnd.
Tilviljun eða loftslagsbreytingar?
Einar segir að þessi neikvæðni Norður-Atlantshafsvísisins geti verið tilviljun að það komi svona langt þurrkatímabil en það geti líka tengst loftslagshlýnun. „Ég hef séð skrif um það að allavega frá 1950 hafi ekki komið svona langt tímabil með samfelldum neikvæðum Norður-Atlantshafsvísi en það er auðvitað freistandi að álykta sem svo að þetta tengist eitthvað breyttri lofthringrás norðurhvelsins að sumarlagi sem menn hafa erið að sjá á síðustu árum og tengist þá loftslagshlýnuninni. Það verður býsna fróðlegt að sjá hvað um þetta verður fjallað á næstu mánuðum.“
Lélegt skyggni á Suðurlandi vegna moldroks
Í sumar hefur verið mikið sandfok eða moldarrok á Suðurlandi. Einar segir það beina afleiðingu þurrkanna. „Þetta er eitt af því sem við höfum verið að glíma við. Það eru örfokasvæði, sérstaklega í uppsveitum Suðurlands sunnan Langjökuls sem fýkur úr alveg stöðugt ef þau ná að þorna eins og núna. Þá fýkur fínasta efnið og myndar mjög greinilegan mökk og leggst yfir langt á haf út. Þar fyrir utan erum við enn að glíma við afleiðingar Skaftárhlaupsins fyrir rúmu ári síðan sem skyldi eftir sig fínan leir á Eldhrauninu og ef þetta hefði verið venjulegt sumar með venjulegri vætu hefði sennilega ekki orðið neitt fok. “
Hefur veðrið gjörbreyst?
Þurrkarnir hafa haft í för með sér töluvert rask, sérstaklega fyrir bændur. Í júní voru margir orðnir áhyggjufullir, neyddust jafnvel til að slá skrælnuð tún bara til þess að bjarga því sem bjargað varð. En batnaði þetta mikið eftir því sem á leið sumarið? „Nei, það má eiginlega segja að þessi þurrkur hafi ekki verið samfelldur heldur hafi verið tvö skeið, fyrst snemma í vor en þá nutu menn þess að það var mjög góður jarðvegsraki eftir miklar rigningar í apríl. Þeir bændur sem voru heppnir eða fyrirhyggjusamir náðu inn ágætis heyjum til að byrja með. Svo gufaði allt vatn upp og jarðvegurinn þornaði. Það voru svo dálitlar rigningar, sérstaklega framan af júlí á Vesturlandi. Úrkoman í Reykjavík var ekki langt frá meðallaginu. Síðan frá því seint í júlí og meira og minna það sem af er ágúst hefur verið mjög þurrt og í Reykjavík er samanlögð úrkoma í þessum mánuði innan við fimm millimetrar. Ef ekki stefndi í þessar rigningar sem við sjáum í spánum núna um og eftir helgina, frá sunnudegi og áfram, þá teldist þetta mjög afbrigðilegt.“
Eiríkur Egilsson bóndi á Seljavöllum í Nesjum sagði í samtali við fréttastofu í Júní að veðurfar væri gjörbreytt frá því sem áður var, veðurkaflarnir væru orðnir lengri. „Það er engin almennileg rigning og þegar það fer að rigna, þá rignir örugglega í mánuð. Þetta er allt öðruvísi en það var,“ sagði hann. Einar segir þetta áhugavert sjónarhorn. „Ég hef ekki séð neitt skoðað hvað þetta varðar en heyri oft frá fólki að veðrið og tíðin sé skökk miðað við það sem áður var, það rigni meira í sunnanátt fyrir norðan og svo geri norðanátt og bændur á Suðurlandi ætli að þurrka hey og þá rignir ofan í það hey þrátt fyrir að vindáttin sé rakin þurrkvindátt. Það er ýmislegt svona sem gerist og vekur furðu og maður skyldi ekki útiloka að þetta hafi gerst að einhverju leyti áður. Það er þessi vandi að greina náttúrulegar sveiflur í veðri milli vikna og mánuða frá einhverri leitni eða varanlegum breytingum.“ Á Íslandi sé tíðarfar mjög sveiflukennt. „Flestir geta eiginlega sagt veðrið er allt öðru vísi en í mínu ungdæmi.“
Vatnsbúskapur víða lélegur
Það hefur verið lítið vatnsmagn í mörgum ám og sumir tala um sögulega lélegan vatnsbúskap. Einar segir það standast. „Mælingar hafa sýnt það, bæði beinar mælingar á rennsli ánna og líka bara sjónrænt.“ Sums staðar hafi ár og vötn einfaldlega þornað upp, bændur muni margir ekki annað eins. Minnkað hefur í vatnsbólum og einhver sveitarfélög hafa gripið til þess að biðja íbúa að fara sparlega með vatn. Sumir hafa þurft að nota heita vatnið sem drykkjarvatn, sjóða það og kæla og í Eilífsdal í kjós var ráðist í framkvæmdir eftir að vatnsból tæmdist og ný veita tekin í notkun sex dögum síðar. „Neysluvatnið er grunnvatn, ekki yfirborðsvatn og grunnvatnsstaðan tekur við af langvarandi breytingum. Haustrigningar geta bjargað miklu en ég gæti trúað því að grunnvatnsstaðan víða á Suður- og Vesturlandi væri orðin nokkuð lág eftir þetta þurra sumar.
Nóg af vatni á höfuðborgarsvæðinu
Að sögn Ólafar Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Veitna, hefur ekki orðið óeðlileg lækkun á vatnsstöðu vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins í sumar. Á Myllulækjar og Gvendarbrunnasvæði hefur vatnsborð lækkað lítið, um innan við einn meter frá í byrjun maí. Í Vatnsendakrikum hefur vatnsborð lækkað um fjóra metra á síðustu fjórum mánuðum. Á sumrin lækkar yfirborðið yfirleitt um meter á mánuði. Ólöf segir ástandið ekki mjög frábrugðið því sem þau séu vön. Áframhaldandi þurrkatíð megi vara í marga mánuði í viðbót án þess að vandræði skapist en líklega hækki rigningar í haust og vetur vatnsborðið aftur. Hún bendir á að bæði veitur og Vatnsveita Kópavogs geti fært dælur sínar neðar og því brugðist við, haldi vatnsborð áfram að lækka.
Þurfum við áfram að súpa seyðið af þurrkunum?
Getur verið að þurrkatíðin hafi neikvæðar afleiðingar á næstu mánuðum? „Það er klárt mál að allur trjágróður tekur upp vatnsforða sinn á haustin þegar það er yfirleitt næg væta í jarðveginum. Eftir svona þurrt sumar sunnan- og vestanlands er mikilvægt að haustrigningarnar klikki ekki. Maður hefur svo sem engar áhyggjur ef næstu þrír mánuðir verða nokkuð eðlilegir úrkomumánuðir en ef Norður-Atlantshafsvísirinn heldur áfram að vera neikvæður og það verður þurrt á okkar slóðum þá fer maður nú kannski að hafa einhverjar áhyggjur,“ segir Einar Sveinbjörnsson.