Bæjaryfirvöld í Grindavík fóru strax í gær að undirbúa aðgerðir vegna óvissustigs sem lýst hefur verið yfir vegna landriss og jarðskjálfta vestan við fjallið Þorbjörn. Áfram verður haldið með skipulagningu næstu daga af miklum þunga, segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar.

Ríkislögreglustjóri lýsti óvissustiginu yfir í gær og var haldinn íbúafundur í íþróttahúsinu í Grindavík klukkan 16 í dag. Fannar segir mjög eðlilegt að einhverjum líði illa við þessar aðstæður og því hafi verið mikilvægt að halda íbúafundinn til að fara yfir stöðuna og það sem fram undan er.

Fullt var út úr dyrum á íþróttahúsinu og á þriðja þúsund manns fylgdist með beinni útsendingu af fundinum á vefnum. „Fyrirlesararnir stóðu sig mjög vel og heimamenn komu með yfirvegaðar spurningar. Ég hef heyrt að fólk hafi verið ánægt með fundinn,“ sagði Fannar í samtali við Þórhildi Þorkelsdóttur, fréttamann, eftir fundinn í dag. 

Telja sig ekki vera í tímaþröng

Víða er verið að skipuleggja áætlanir til að bregðast við ef það fer að gjósa. Fannar nefnir björgunarsveitina í bænum og almannavarnanefndina, HS veitur og HS orku. „Þetta eru svona ýmsir innviðir sem við þurfum að horfa til. Sem betur fer er ekki mikil tímaþröng, það er ekki yfirvofandi stór vá alveg á næstunni þannig að okkur gefst vonandi tími til að undirbúa alla vel.“

Það þurfi hver og einn að hlúa að sér og hver fjölskylda að hlúa að sínu. „Menn þurfa að halda vel hvert utan um annað, ekki síst um börn og unglinga. Þannig að þetta eru ýmis verkefni framundan hvað þetta varðar.“

Sumir kvíðnir vegna jarðhræringanna

Grindvíkingar eru sumir kvíðnir vegna jarðhræringanna en eru þó sammála um að íbúafundur um málið hafi verið greinargóður og slegið á óttann. 

Sigurgeir Sigurgeirsson, íbúi í Grindavík, segir að þessi staða leggist vel í sig. „Ég er ekkert hræddur. Þetta er svolítið spennandi,“ sagði hann í samtali við Þórhildi Þorkelsdóttur, fréttamann, í dag.

„Maður er náttúrulega svolítið nervus yfir þessu öllu saman og vill undirbúa sig ef til einhvers kemur,“ segir Margrét Gísladóttir.

Klara Teitsdóttir segir að það sé eitt sem valdi henni áhyggjum. „Það er það að ég sat við hliðina á tengdamömmu minni á fundinum þegar það var verið að senda út SMS frá 112. Hún fékk sitt tvær mínútur í fimm og ég fékk mitt 9 mínútur yfir fimm. Þannig að það munaði 11 mínútum á.“

„Ég held að maður hljóti að redda sér,“ segir Þórdís Ágústsdóttir, að spurð að því hvernig þetta leggist í hana. 

Unnar Hjálmarsson segir að hann hafi verið frekar rólegur yfir þessu og jafnvel að gera grín, sem sé að sjálfsögðu ekki í lagi. „En maður er samt stressaður innra með sér og hefur áhyggjur af þessu.“