Mikilvægt er að hefja snemma þjónustu við ung börn með röskun í taugaþroska. Solveig Sigurðardóttir læknir segir að börn mótist af umhverfi sínu og rannsóknir síðustu áratugi sýni að hægt sé að hafa óbein áhrif á starfsemi taugakerfisins með því að örva þau með markvissum leiðum.

Solveig, sem var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun, segir að þannig sé hægt að koma í veg fyrir að börn vaxi inn í fatlanir. Séu börnin fötluð megi koma í veg fyrir neikvæða þróun og hafa jákvæð áhrif á hegðun þeirra og félagsfærni. Beita þurfi aðferðum sem sýnt hefur verið fram á að hafi jákvæð áhrif og fólk sem aðstoðar börnin þurfi að þekkja þessar meðferðarleiðir. 

Greiningar- og ráðgjafarstöðin hefur mótað þessar aðferðir á síðustu 20 til 30 árum. Solveig segir að virk þátttaka foreldra felist í íhlutuninni og unnið sé í teymi með þroskaþjálfa, sjúkraþjálfara, félagsráðgjafa og lækni. 

Allt að 18 mánaða bið eftir endanlegri greiningu

Solveig segir að of löng bið sé eftir greiningu. „Við forgangsröðum í þjónustuna þannig að yngstu börnin hafa algjöran forgang. Það er hins vegar alltof löng bið eftir þjónustu fyrir börn frá rúmlega tveggja og hálfs til sex ára aldurs.“ Margt sé þó hægt að gera fyrir börnin á meðan þau bíða eftir endanlegri greiningu og reynt sé að hefja íhlutun strax í stað þess að bíða í marga mánuði.

Foreldrar geta ekki hringt sjálfir eða komið á Greiningarstöðina. Frumgreining þurfi að koma frá leikskóla eða grunnskóla þar sem skólasálfræðingar starfa. Ef börnin eru mjög ung sé hægt að leita til barnalæknis eða sjúkraþjálfara ef áhyggjur eru af hreyfifærni barns, að sögn Solveigar. 

Áhersla á tvítyngd börn á ráðstefnu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar

Vorráðstefna Greiningar- og ráðgjafarstöðvar er haldin 9.-10. maí. Tæplega 400 þátttakendur hafa skráð sig á ráðstefnuna í ár, að sögn Unnar Árnadóttur fræðslustjóra Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hún segir að mjög breiður hópur fólks sæki ráðstefnuna og að dagskráin sé mjög fjölbreytt en sérstök áhersla verður lögð á tvítyngd börn.