Mikilvægi flugs fyrir hagvöxt og uppbyggingu hefur oft verið vanmetið en tíu prósenta aukning flugtenginga leiðir til um 0,5 prósenta aukningar hagvaxtar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í drögum að samræmdri flugstefnu á Íslandi.
Verkefnastjórn um mótun flugstefnu fyrir Ísland skilaði samgöngu- og sveitastjórnaráðherra drögum að grænbók um stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi síðasta föstudag. Í grænbókinni er annars vegar greining á stöðunni í málaflokknum og hins vegar tillögur að áherslum til framtíðar en flugstefna hefur ekki verið mótuð áður með heildstæðum hætti.
Í skýrsludrögunum kemur fram að mikilvægi flugs fyrir hagvöxt og uppbyggingu fyrirtækja sé oft vanmetið. Rannsóknir sýni að tíu prósenta aukning flugtenginga leiði til um 0,5 prósenta aukningar hagvaxtar og að aukning farþega á flugvelli um eina milljón leiði til tæplega þúsund nýrra starfa. Þá hafi komið fram í skýrslu Oxford Economics um flug á Íslandi að störf í flugtengdri starfsemi væru að meðaltali einu komma sjö sinnum verðmætari en meðalstarfið á Íslandi.
Víða er þó pottur brotinn, bæði hvað varðar almannaflug og áætlunarflug. Starfshópurinn hefur skilað inn tillögum í sextán liðum um úrbætur í málaflokknum.
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að það sé áhyggjuefni hversu hár meðalaldur loftfara er hér á landi. Samkvæmt loftfaraskrá er meðalaldur einkaflugvéla 51 ár og meðalaldur allra loftfara er 36 ár. Þá lýsir slysavarnarfélagið Landsbjörg yfir áhyggjum af því að allir innviðir séu í nær sama horfi og þegar Íslendingar og ferðamenn voru mun færri. Mikilvægt sé að bæta aðstöðu og almenna umgjörð fyrir almannaflug og neyðarflug.
Þá eigi að leggja áherslu á uppbyggingu varaflugvalla fremur en byggja upp fleiri alþjóðaflugvelli en í Keflavík. Innviðir varaflugvallanna séu ekki nægjanlega góðir.