Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður og íbúi á Suðureyri, segir að það hafi verið mikill kraftur í flóðbylgjunni sem skall á bænum eftir stórt snjóflóð hinum megin í Súgandafirði. Hún segir að flóðbylgjan hefði getað hrifið með sér bæði fólk og bíla við höfnina.

 „Fólki er mjög brugðið, ef að einhver hefði verið þarna á ferðinni þegar þetta gerðist þá hefði það hrifið fólk með sér og jafnvel bíla, ekki spurning. Þannig að maður bara þakkar fyrir að þetta sé á þessum tíma sólarhrings milli ellefu og tólf þegar fólk að öllu jöfnu er ekki á ferðinni, í svona leiðindatíð eins og búið er að vera undanfarið, en ég hefði ekki gefið mikið fyrir það ef fólk hefði verið þarna á ferðinni,“ segir Lilja Rafney. 

Sjór gekk á land við höfnina og flæddi inn í kjallara í húsi við Aðalgötu. Ekki er talið að það hafi orðið mikið tjón en Lilja segir að það hefði getað farið verr. „Þetta sem gerist við svona mikla snjósöfnun hinum megin í firðinum er auðvitað bara eitthvað sem mér finnst að þurfi að taka miklu alvarlegar í framhaldinu, með rýmingu húsa þegar svona mikil snjósöfnun er. Ef menn eru að sinna bátum eða vinnu þá er það bara eitthvað sem er stórhættulegt við svona aðstæður.“

Lilja Rafney segir að veðrinu hafi slotað töluvert frá því sem var fyrr í kvöld. „Eins og stundum gerist eftir svona þá er eins og það dúri alveg niður en það er bara allt á kafi í snjó. Manstu eftir svona miklum snjó síðustu ár? Eiginlega ekki síðan þessi miklu flóð voru á Flateyri og Súðavík á sínum tíma, þá voru svona mikil snjóalög alls staðar í þessum fjörðum,“ segir Lilja Rafney.