Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir miður að umfangsmiklar aðgerðir stjórnvalda hafi ekki dugað til að koma í veg fyrir að Ísland lenti á lista yfir ríki með ófullnægjandi varnir gegn peningaþvætti. Ísland er fyrsta Evrópuríkið í þónokkuð mörg ár sem lendir á listanum.
FATF, alþjóðlegur starfshópur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka tilkynnti þetta í morgun. Á listanum eru lönd sem eru ekki talin hafa gripið til nægra aðgerða í málaflokknum. Ísland er nýtt á lista, ásamt Mongólíu og Simbabve. Á listanum eru meðal annars Panama, Pakistan, Sýrland og Jemen. Eþíópía, Sri Lanka og Túnis hafa bætt stöðu sína og fara því af listanum.
Dómsmálaráðherra segir ákvörðunina mikil vonbrigði. „Við vorum auðvitað hér í höftum sem höfðu áhrif á það að þetta kom ekki til greina, það var hver einasta króna skoðuð sem kom inn til landsins og við förum ekki að skoða þetta almennilega fyrr en eftir það og FATF hafði alltaf fullan skilning á því á meðan við vorum í höftum.“
Stjórnvöld sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem þessu er mótmælt. Ákvörðunin endurspegli ekki stöðu landsins og þess vænst að hún verði endurskoðuð sem fyrst. Í skýrslu hópsins í fyrra var bent á 51 ágalla á framkvæmd í málaflokknum og hafa stjórnvöld unnið að úrbótum.
„Þau segja í þessari tilkynningu sinni að þau komist ekki yfir það að taka efnislega afstöðu til þessara breytinga sem gerð var á undanförnum vikum og það er auðvitað miður en ég lít svo á að það sé alveg borðliggjandi að við förum af listanum í byrjun næsta árs,“ segir Áslaug Arna.
Mótmælum stjórnvalda var komið á framfæri á fundi FATF í vikunni þar sem fjöldi ríkja studdi málstað Íslands. Umræður og gögn af fundum eru bundin trúnaði og því gátu fulltrúar Íslands ekki tjáð sig þegar fréttastofa leitaði eftir því. Áslaug hafnar því að stjórnvöld hafi dregið lappirnar. „Frá því að niðurstöðurnar lágu fyrir 2018 höfum við gert gríðarlega mikið og mikil vinna verið lögð í þetta og þetta hefur verið í algjörum forgangi í stjórnkerfinu að koma þessu í lag.“