„Þetta er að þokast í rétta átt,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, um stöðu flokksins í viðtali í kosningavöku RÚV um klukkan þrjú. Hann taldi að þegar líða tæki á nóttina og atkvæði bærust víðar að á talningarstaði gæti staðan breyst og staða flokksins í Norðausturkjördæmi batnað.
„Það er eiginlega ekki hægt annað þegar flokkurinn stefnir í að fá minnsta fylgi í hundrað ára sögu sinni á hundrað ára afmælinu,“ sagði hann aðspurður um hvort niðurstaða flokksins væri ekki slæm. Framsóknarflokkurinn er nú með 11,1 prósents fylgi en hefur minnst fengið 11,7 prósent, í þingkosningum 2007.
Sigmundur Davíð hugsaði sig um í nokkra stund áður en hann svaraði, aðspurður hvort flokkurinn ætti erindi í ríkisstjórn ef niðurstaðan yrði þessi. „Auðvitað metum við þetta bara í fyrramálið þegar tölurnar liggja endanlega fyrir.“ Hann benti á að Sjálfstæðisflokkurinn hefði náð góðum árangri í kosningunum og kvað að Framsóknarflokkurinn hefði hugsanlega getað fengið hluta af þeirri fylgisaukningu ef öðruvísi hefði verið haldið á málum í Framsóknarflokknum. Hann vísaði til innanflokksátaka sem lauk með því að Sigurður Ingi Jóhannsson lagði Sigmund að velli í formannskjöri á landsfundi flokksins fyrir kosningar.