7.200 eru nú án vinnu og er það mesta atvinnuleysi sem mælst hefur í fimm ár. Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 að atvinnuleysistryggingasjóður stæði ágætlega. Hún hefði þó áhyggjur af þeim samdrætti sem virðist vera í samfélaginu. Stofnunin treysti á að það verði uppsveifla á næsta ári.

Viðurlög við utanlandsferðum íþyngjandi

Unnur segir að það gerist að fólk sem þiggi bætur sé gripið við að fara til útlanda án þess að tilkynna það til Vinnumálastofnunar áður. Flestir tilkynni þó um ferð og þá falli greiðsla trygginga niður meðan á fríi stendur. Unnur segir að fyrirkomulagið sé vel kynnt, enda viðurlögin íþyngjandi. Greiðslur séu felldar niður í tvo mánuði ef upp komist um ferðalag til útlanda án tilkynningar. 

Þá séu um 116 einstaklingar á atvinnuleysisskrá sem starfsfólk stofnunarinnar viti ekkert um. Þetta séu aðallega útlendingar sem talið er að hafi farið heim og ekki látið stofnunina vita,. 

Pólitískt mál

Aðspurð hvort það sé ekkert sem heiti að fá frí og geta aðeins slakað á þegar maður er atvinnulaus, segir Unnur að svo sé ekki, samkvæmt lögum. Hún telji þó að fólk í langtímaatvinnuleysi hafi líka þörf á að hvíla sig og ekkert síður. Hún telji að málið verði rætt á ný, þetta sé fyrst og fremst pólitískt. Með lagabreytingum sé þó kominn veikindaréttur og er hægt að tilkynna um veikindi án þess að viðkomandi missi bætur meðan á veikindunum stendur. 

Fylgjast með IP-tölum og fá ábendingar

Unnur segir að oft sé fólk staðið að ótilkynntum utanlandsferðum með því að skoða IP-tölur. Fólk staðfestir atvinnuleit einu sinni í mánuði. Þá er hægt að fara yfir IP-tölurnar og þannig komist flest mál upp. Einnig berist ábendingar. Þá segir hún að ef Vinnumálastofnun rekst á fólk á samfélagsmiðlum sem virðist vera statt utanlands sé óskað skýringa.

Greinilegur samdráttur í samfélaginu

Unnur segir greinilegt að það sé samdráttur í samfélaginu enda meira atvinnuleysi en undanfarin ár. Auk þess bætist við fjöldi starfsfólks WOW air og tengdra aðila. Suðurnesin hafi farið illa út úr falli flugfélagsins og samdrætti í ferðaþjónustu. Unnur segir að af þeim 960 sem misstu vinnuna hjá WOW hafi 780 þegið bætur. Nú séu 608 eftir á skrá en hún hefði viljað sjá þeim fækka hraðar. 

Unnur segir að flestir séu á atvinnuleysisskrá skemur en sex mánuði. Það sé þó mjög misjafnt og fari eftir atvinnuástandinu. Því sé svolítill uggur í Vinnumálastofnun varðandi samdráttinn. Fólk geti verið á bótum allt að þrjátíu mánuði en það sé sjaldgæft. 

Útlendingum sé lofað gulli og grænum skógum

Aðspurð hvort beri á einstaka hópum úr samfélaginu á atvinnuleysisskrá segir Unnur að stór hópur af háskólamenntuðu fólki sé nú á bótum og hann sé fjölmennari nú en verið hafi í gegnum tíðina. Þjóðin sé betur menntuð. Þá vilji hún ekki sjá ungt fólk á skrá, heldur í skóla eða vinnu. 

Auk þess séu útlendingar, sérstaklega þeir sem fengnir séu til landsins til þess að vinna, sérstakur áhættuhópur. Margir missi vinnuna eftir aðeins nokkurra mánaða dvöl og störf hér á landi. Það fjölgi alltof hratt í þeim hópi. Nú er verið að skoða þessi mál og bregðast við. „Mér finnst áhyggjuefni að við séum að laða til okkar, eða fá fólk hingað, og kannski lofa því gulli og grænum skógum og svo kannski er allt búið eftir eitt til tvö ár,“ segir Unnur.