Svanafólkið eftir Kristínu Ómarsdóttur er dásamlega skemmtileg bók að mati gagnrýnenda Kiljunnar. Þar segir frá Elísabetu í innanríkisráðuneytinu sem kynnist Svanafólkinu, sem eru svanir að neðan en menn að ofan, sem berjast fyrir tilveru sinni.

„Þetta er dásamleg bók,“ kastar Guðrún Baldvinsdóttir strax fram. „Þegar ég byrjaði að lesa bókina fór ég að lesa í táknin, hvað þau stæðu fyrir í okkar samtíma. En mér leið mun betur þegar ég hætti því, maður þarf bara að leyfa Kristínu að leiða sig um þennan stórkostlega heim.“

Þorgeir Tryggvason segir að í sögu sem þessari hefði hann búist við að það væri stillt upp andstæðum, hinum stranga röklega heimi innanríkisráðuneytisins á móti óreiðunni hjá furðulega Svanafólkinu. „En Kristín náttúrulega gerir það ekkert. Alltaf þegar maður heldur að maður sé orðinn öruggur í raunveruleikanum segir einhver eitthvað sem er að minnsta kosti jafn skrýtið og það sem fram fer hjá Svanafólkinu. Þetta er alveg mergjað skemmtilegt ef maður er til í að stíga upp á þetta trampólín sem Kristín er búin að búa þarna til. Það þarf bara að gefa eftir.“

Þegar lesandinn kynnist Svanafólkinu eru upp miklar deilur í samfélagi þeirra um hvort það eigi að gefast upp og byrja að vinna í Húsdýragarðinum. Þá birtist á einum tímapunkti egg og ósagt ofbeldi vofir alltaf yfir þeim. „Þetta gengur náttúrulega ekki upp – þetta á ekki að ganga upp,“ segir Guðrún Baldvinsdóttir. „Þetta er stórskemmtileg lesning og mjög góðar hugmyndir um tungumálið, dýpt í þessu líka.“