Mér líður eins og ég hafi unnið í happdrætti, segir Nisreen Suleymani, sýrlensk kona sem býr nú á Blönduósi. Hún vonast til að eiga hér gott líf eftir að hafa orðið fyrir miklum fordómum um ævina vegna uppruna síns.

Nisreen settist að á Blönduósi í síðustu viku ásamt eiginmanni og tveimur sonum. Fjölskyldan er í hópi kvótaflóttafólks sem hingað kom í boði íslenskra stjórnvalda. „Fyrir okkur þá var þetta eins og að vinna í happdrætti. Mér líður þannig. Þetta er tækifæri fyrir okkur til þess að byrja líf okkar upp á nýtt.“

Þessi samlíking er ekki fjarri lagi. Samkvæmt flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna eru um 15 millljónir á flótta í heiminum og Nisreen er ein þeirra 75 sem voru handvalin af íslenskri sendinefnd til þess að fá að setjast að hér á landi í ár. 

Líst vel á nýja heimilið

„Blönduós er mjög notalegt og hér er fallegt umhverfi. Fólkið hér er afskaplega indælt og elskulegt og heimilið okkar afskaplega fallegt.“ Hún segir að hér sé mun rólegra en í Sýrlandi og Líbanon. Fjölskyldan er frá Sýrlandi en neyddist til að flýja þaðan vegna stríðsins og dvaldi í flóttamannabúðum í Líbanon í fjölda ára. 

„Við urðum fyrir mjög miklum fordómum vegna uppruna okkar, í alvöru talað. Í báðum löndum. Í Sýrlandi og í Líbanon. Við urðum fyrir miklum fordómum í Sýrlandi vegna þess að við erum Kúrdar og í Líbanon vegna þess að við erum Sýrlendingar. En hér er ekkert slíkt. Alveg frá því við komum hafa allir sem við mætum heilsað okkur glaðlega. Við skiljum þau kannski ekki og þau ekki okkur en við finnum fyrir kærleikanum og sjáum hann í augunum á þeim. Til dæmis eignuðust synir mínir strax vini. Eftir aðeins tvo daga var farið að banka upp á og spyrja eftir þeim.“

„Við vonumst til þess að eiga gott líf hér,“ segir Nisreen að lokum.