Melchior gaf nýlega út pötuna Hótel Borg þar sem hljómsveitin heldur sig við sitt vandaða kammerpopp, en leitar stöðugt að tónlistarlegum nýjungum. Á Hótel Borg eru allir textar tengdir hinu sögufræga hóteli á einn eða annan hátt en Melchior rýnir í söguna og leitar einnig í eigin reynslubanka.

Hótel Borg inniheldur 12 lög eftir þrjá lagasmiði Melchior og kennir þar ýmissa grasa sem teikna upp heildarmynd af Hótel Borg. Þar má nefna baklit í gömlu dansana með laginu Gamla dansaranum og Reykjavíkurstemmningu frá árinu 1933 í laginu Alla leið til stjarnanna, úttekt á böllum Borgarinnar í Borgardjammi, og skoðun á starfsviði einstakra stétta í lögunum Búa um rúm, Eldhúsþulu og Söng næturvarðarins.

Hljómsveitin Melchior er skipuð þeim Hilmari Oddssyni, Hróðmari I. Sigurbjörnssyni og Karli Roth, sem syngja og leika á gítara og hljómborð, Kristínu Jóhannsdóttur söngkonu, Gunnari Hrafnssyni bassaleikara og Kjartani Guðnasyni trommuleikara.

Gestaleikarar á plötunni eru ekki af lakari endanum. Davíð Þór Jónsson leikur á Hammond-orgel, Margrét Kristjánsdóttir á fiðlur og víólu og Þórdís Gerður Jónsdóttir og Sigurður Halldórsson á selló. Brasstríó skipa Herdís Ágústa og Ingibjörg Ragnheiður Kristjánsdætur Linnet sem leika á trompet og Steinn Völundur Halldórsson á básúnu. Þá leikur Hekla Magnúsdóttir á hið magnaða hljóðfæri þeramín. Þá syngur hin góðkunna Magga Stína í sálminum Guð býr á Borginni, Magga.

Grunnar plötunnar voru teknir upp af Lindu Björg Guðmundsdóttur og Sveini Kjartanssyni en hann sá einnig um hljóðblöndun ásamt hljómsveitinni.

Hótel Borg frá Melchior er plata vikunnar að þessu sinni, þú getur hlustað á plötuna í heild sinni ásamt kynningum frá sveitinni í spilara hér að ofan.