Viðkvæm staða hælisleitenda hefur nú aukið vægi frá því sem áður var þegar ákveðið er hvort taka skuli umsókn þeirra til efnislegrar meðferðar eða vísa þeim beint aftur úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þetta sýna þrír nýir úrskurðir kærunefndar Útlendingamála. Ástæðan er ekki neitt sem segir í útlendingalögum sjálfum, heldur í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum fyrir mánuði, þar sem vilji löggjafans í þá veru er áréttaður.
Guðríður Lára Þrastardóttir, lögfræðingur Rauða krossins, segir að þetta þýði að nú sé bæði horft til persónulegra aðstæðna fólks, til dæmis hvort það hafi orðið fyrir pyntingum, sé fórnarlömb mansals, ung börn, þungaðar konur eða með geðraskanir eða alvarlega sjúkdóma, og hins vegar til þess hvaða aðstæður geti beðið fólks í viðtökuríkinu.
„Og þar koma atriði eins og bara kynþáttur – hvernig er stemmningin í samfélaginu sem á að senda þig til, eru kynþáttafordómar ríkjandi í þessum samfélögum? Þetta er auðvitað mjög stór og almennt réttarbót og mjög gleðilegt,“ sagði Guðríður Lára í Morgunútvarpinu í morgun.
Hægt að hlusta á viðtalið við Guðríði Láru í heild sinni í spilaranum hér að ofan.