Taronga-dýragarðurinn er meðal þeirra sem leggja sitt af mörkum til að koma dýrum til bjargar, eins og ýmis dýraverndunarsamtök og félagasamtök. En eins og með slökkviliðsmennina sem berjast við skógarelda í Ástralíu eru margir þeirra sem að koma dýrum til bjargar sjálfboðaliðar. 

Dýralæknir meðal sjálfboðaliða

Karen Viggers er dýralæknir sem hefur sérhæft sig í viltum dýrum og er reyndar líka rithöfundur. Hún býr í Canberra, höfuðborg Ástralíu, sem er nokkur hundruð kílómetra suðvestan við Sydney og skammt frá suðurhluta Nýja Suður-Wales þar sem miklir eldar loguðu um áramótin. Karen er ein þeirra sem vildu leggja sitt af mörkum. 

Karen dýraæknir nefnir einnig dýrin sem hafa verið við það að deyja út, til dæmis nokkur lítil pokadýr: Greater glider; lítið næturdýr sem heldur sig í eucalyptustrjánum. Það líkist að vissu leyti lemúr, með langt skott, stór augu og stór eyru. Þá nefnir hún long nosed potteroo, lítið pokadýr sem tilheyrir fjölskyldu rottu-kengúra og Kengúrueyju-dunnart sem líkist stórri mús með langt trýni. Karen segir einnig ástæðu til að hafa áhyggjur af Glossy Black-Cockatoo, stórum svörtum páfagauk í útrýmingarhættu. 

Karen Viggers segir að mörgum dýrategundum hafi verið ýtt út á ystu nöf í þessum eldum og hafa beri í huga að það sé til viðbótar við ágang mannsins á búsvæði þeirra, til dæmis með skógarhöggi til margra ára. Eldarnir gætu reynst kornið sem fyllir mælinn. 

Framundan er tími endurnýjunar og bata. Dýralæknirinn Karen telur náttúruna ná sér fljótt aftur á strik, sérstaklega láti maðurinn hana í friði, æði til dæmis ekki af stað með skógarhögg sem er talið hægja á endurnýjun skógarins og gera dýrategundum enn erfiðara um vik.