Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að áfram verði meðferðarúrræði fyrir börn 18 ára og yngri á Vogi. Heilbrigðisráðherra segir að það hafi gengið hægar en vonir stóðu til að færa þjónustuna á Landspítala.
Það var mikið gagnrýnt að börn væru í samvistum við fullorðna sjúklinga á Vogi en í mars 2018 braut fullorðinn sjúklingur þar tvívegis gegn 16 ára stúlku. Tæpum mánuði síðar tilkynnti Vogur að hætt yrði að taka við ungmennum undir 18 ára í meðferð, en áfram yrði þessum viðkvæma hópi sinnt þar til nýtt úrræði væri í augsýn. Í nóvember fól heilbrigðisráðherra Landspítala að sinna ungmennum yngri en 18 ára og gert var ráð fyrir að starfsemin gæti hafist nú í sumar.
Gengið mjög hægt að ætla færa starfsemina
„En það hefur gengið hægar en vonir stóðu til, þannig við erum ekki alveg komin þangað en við sjáum ákveðna möguleika í að styrkja faglegan grunn SÁÁ," segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Í dag fékk Valgerður Rúnarsdóttir yfirlæknir á Vogi þau skilaboð frá heilbrigðisráðherra að semja ætti við Vog að halda áfram að sinna yngsta hópnum. Þá verða 50 milljónir sérstaklega eyrnamerktar því að bæta þjónustuna.
Vogur geti vel valdið hlutverkinu til frambúðar
Valgerður segir að það taki tíma að byggja upp betra utanumhald og meiri þjónustu við hópinn. „Við höfum breytt talsvert miklu þó við höfum ekki verið að fá sérstök framlög og varðandi það að vera með ungmenninn sér, er það miklu meira en fyrir 2 árum," segir hún. Sjúkrahúsið sé vel í stakk búið til að sinna þjónustunni til frambúðar, sérstaklega ef það fái fjárveitingar til þess.
En heilbrigðisráðherra stefnir enn á að hún verði færð að lokum. Hún segir það augljóst að ekki dugi að nota sömu nálgun á fullorðna og börn. „Við erum ekki á byrjunarreit en við erum að brúa bilið yfir í að Landspítalinn taki við þessum hluta starfseminnar, segir Svandís.