„Ég hef alveg kallað þetta líkklæði jurtanna,“ segir Viktor Pétur Hannesson myndlistarmaður sem býr til grafíklistaverk úr jurtum sem hann tínir og pressar í gamalli hitapressu. „Oftast er ég samt bara að leita að litum og setja þá saman í mynd.“ Í sumar flandraði Viktor um landið á húsbíl sem hann safnaði fyrir með hópfjármögnum á netinu og setti upp vinnustofu og sýningar í tjaldvagninum sínum. Landinn heimsótti hann á tjaldsvæðið í Skorradal í ágúst.

„Ég er að vinna með náttúrunni, hvað er í boði hverju sinni. Núna í ágúst er allt annað umhverfi heldur en í júní. Mikið af þessum bláu blómum sem ég hef verið að pressa í sumar eru að verða búin og nú koma aðrir litir,“ segir Viktor og bætir því við að skemmtilegast sé að vinna með jurtir sem koma á óvart og skila kannski allt öðrum lit en hann reiknaði með. 

„Svo er ég líka alveg að tala við rómantísku hugmyndina um farandlistamanninn,“ útskýrir Viktor sem hefur notið þess að ferðast um landið á húsbílnum. „Það er líklega bara þetta flökkueðli sem margir kannast við. Þetta verður einhvers konar leiðangur eða ævintýraför.“