Atlas, fyrsta breiðskífa tónlistarmannsins Marteins Sindra Jónssonar, kemur út í stafrænum miðlum 16. maí og á vínylplötu um miðjan september samhliða útgáfutónleikum í Iðnó.
Platan var um það bil fjögur ár í vinnslu og afraksturinn er víðfeðmur hljóðheimur með kjölfestu í einföldum lagasmíðum þar sem gjarnan bregður fyrir ljóðrænum landslagsmyndum sem sveipaðar eru goðsagnakenndum blæ. Fyrsta smáskífan af plötunni kom út í vikunni, en hún inniheldur lagið Dice. Tónlistin á plötunni er allt í senn þjóðlagaskotin, framúrstefnuleg og poppuð. Marteinn Sindri hefur þrátt fyrir ungan aldur lengi fengist við tónlist, en hann er heimspekingur og menntaður í klassískum píanóleik. „Platan fæddist fyrir fjórum, fimm árum þegar ég fór að fikra mig frá því að spila bara á píanó og byrja að syngja og spila á gítar,“ segir Marteinn.
Atlas er afrakstur náinnar og vandlegrar samvinnu. Daníel Friðrik Böðvarsson stýrði upptökum á plötunni í hljóðverum í Reykjavík og Berlín. Albert Finnbogason hljóðritaði og hljóðblandaði plötuna auk þess að taka virkan þátt í upptökustjórn á meðan Bergur Þórisson helgaði frumupptökum bæði tíma og orku. „Við höfum reynt að gera okkar allra besta án þess að festast í einhverri fullkomnunaráráttu,“ segir Marteinn Sindri. „Ég held að stærsti kostur og galli plötunnar sé að hún er mjög leitandi, fer mjög víða, mörgum kann að falla það í geð, en öðrum finnst það skrítið, þú gengur ekki að sama hljóðheimi vísum í hverju lagi.“
Spilað víða
Marteinn hefur flutt tónlistina af plötunni víða, meðal annars á miXmass hátíðinni í tónleikahúsinu De Singel í Antwerpen, Melodica Festival í París, og á ljóðahátíðinni í Vicenza á Ítalíu. „Ég hef verið ótrúlega heppinn að fá boð hingað og þangað. Ég fékk þau ráð þegar ég var að byrja að gera plötuna að besta leiðin til að gera svona plötu væri að spila eins mikið og maður mögulega gæti, maður þarf að þroska röddina, og það voru mjög góð ráð.“ Platan var unnin í samstarfi við hóp innlendra og erlendra listamanna, trommuleikarann Magnús Trygvason Eliassen, hljóðfæraleikarana Shahzad Ismaily og ÓBÓ (Ólaf Björn Ólafsson), kontrabassaleikarann Óttar Sæmundsen, sellóleikarann Gyðu Valtýsdóttur og söngvarana Jelenu Ćirić, Örnu Margréti Jónsdóttur, Katrínu Helenu Jónsdóttur og Örn Ými Arason. Masteringin á plötunni var síðan í höndum Söruh Register.
Enginn er Atlas
Titill plötunnar vísar bæði í kortagerð og grísku goðsagnaveruna Atlas hvers hlutskipti var að bera heiminn á herðum sér. Marteinn segist ekki vera með heiminn á herðunum, að minnsta kosti ekki þessa dagana, en mögulega þegar hann var yngri að lesa heimspeki í Berlín. „Ég held reyndar að þetta sé tilfinning sem mjög margir upplifa, það að vera einn, af því að þessi Atlas úr grísku goðsögninni sem er dæmdur til að vera með heiminn á herðunum er fyrst og fremst einn, og einmana, svolítið líkur Sýsifosi, sem rúllar steininum upp og steinninn rúllar alltaf niður, þetta er líka einsemdin í því að semja tónlist,“ segir Marteinn.
Hann kemur úr klassískum píanóleik og segir samspilið við alla þessa tónlistarmenn sem komu að plötunni hafi verið eins og remedía fyrir sig. „Það er oft sagt að það sé enginn eyland, það er enginn Atlas, en kúltúrinn er alltaf að telja okkur trú um það. Það er lögð mikil áhersla á einstaklinginn í nútímanum, en svona verk er ekki verk einstaklings heldur er það fólgið í einhvers konar samfélagi.“ Útkoman er að sögn Marteins hljómkviða sem rambar á mörkum þess hversdagslega og þess kosmíska.
Rætt var við Martein Sindra Jónsson í Lestinni.