Mannréttindadómstóll Evrópu hefur tekið kæru Ólafs Ólafssonar vegna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðkomu þýska bankans Hauck og Aufhauser að einkavæðingu Búnaðarbankans til skoðunar. Ríkið þarf meðal annars að svara því hvort störf nefndarinnar hafi haft ígildi sakamálarannsóknar og hvort Ólafur hafi notið réttarverndar samkvæmt því.
Alþingi skipaði árið 2016 sérstaka rannsóknarnefnd til skoða þátttöku þýska bankans Hauck og Aufhauser í einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands árið 2003. Ári síðar var niðurstaðan birt og var hún afdráttarlaus. Þýski bankinn var aldrei í raun fjárfestir í bankanum, ólíkt því sem haldið var fram í upphafi. Stjórnvöld voru skipulega blekkt bæði í aðdraganda og kjölfar sölunnar og var því lýst hvernig hópur manna vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafssonar sem notuðu leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald þess hlutar sem Hauck og Aufheuser átti í orði kveðnu. Hinn raunverulegi eigandi var aflandsfélagið Welling og Partners, skráð á Tortóla.
Ólafur var svo sjálfur sagður hafa hagnast persónulega á viðskiptunum þegar 57,5 milljónir dollara voru millifærðar af reikningi Welling og Partners hjá þýska bankanum inn á annað aflandsfélag að nafni Marine Choice Limited, einnig skráð á Tortóla. Eigandi þess var Ólafur Ólafsson.
Niðurstaðan jafngildi refsingu
Ólafur kærði málsmeðferð rannsóknarnefndarinnar til Mannréttindadómstóls Evrópu um miðjan júlí 2017. Taldi Ólafur að umgjörð og málsmeðferð nefndarinnar hafi í raun falið í sér sakamál og niðurstaða hennar jafngilt refsingu, án þess að hann hafi notið nokkurra þeirra réttinda sem sakborningar eiga rétt á. Þá hafi nefndin ekki tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem hann kom á framfæri við hana skrifleiðis.
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur kallað eftir svörum frá íslenskum stjórnvöldum vegna erindis Ólafs. Þar er meðal annars spurt hvort jafna mætti störfum nefndarinnar við sakamálarannsókn og staða Ólafs tekið mið af því, hvort Ólafur hafi notið réttlátrar málsmeðferðar, hvort hann hafi notið þess réttar að teljast saklaus uns sekt var sönnuð og hvort réttur hans til friðhelgi einkalífs hafi verið skertur.
Fæst mál enda með dómi
Erindi Mannréttindadómstólsins þýðir þó ekki að mál Ólafs verði tekið til dóms, heldur telur dómstóllinn sig þurfa frekari gögn í málinu ef og þegar það verður til lykta leitt. Þannig bárust Mannréttindadómstólnum um 50 þúsund erindi um upptöku máls í fyrra. Tæplega 80 prósentum þeirra var vísað frá, um 7600 mál fengu nánari skoðun en um 2700 mál enduðu með dómi, eða 5,4 prósent.
Þetta er annað skiptið á skömmum tíma sem erindi Ólafs fær málsmeðferð hjá dómstólnum. Í lok september tók dómstóllinn til skoðunar kæru hans vegna hlutabréfaeignar dómara í Al Thani-málinu þar sem Ólafur var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi. Kjartan Bjarni Björgvinsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og formaður rannsóknarnefndarinnar, vildi ekki veita fréttastofu viðtal að svo stöddu.