„Ég var pínu sár út í Dominos pizza. Þeir vildu ekki einu sinni styrkja Iceland Music News og nota svo textann okkar I auglýsingu,“ sagði Matthías Tryggvi Haraldsson, liðsmaður fjöllistahópsins Hatara, í Kastljósi í kvöld. „Nei ég segi svona,“ bætti Matthías við. Þeir Matthías, Klemens Nikulásson Hannigan og Einar Stefánsson voru spurðir að því hvort það væri þversögn að upplifa það að á meðan þeir fóru til Ísrael með and-kapítalískt atriði sitt hafi auglýsendur nýtt sér atriði þeirra sér í hag.
Einar Stefánsson svaraði því til að það væri skrýtið að upplifa það hvað Hatarar hafi orðið mikil almenningseign á meðan á keppninni stóð úti.
Þremenningarnir sögðu að eftir daginn í dag hyggðust þeir fara í fjölmiðlabann, þótt fjölmargir tónleikar væru framundan. „Við héldum að við værum í fríi í dag,“ sagði Matthías. „Já og að þjóðin væri búin að fá nóg af okkur,“ bætti Klemens við og sagði jafnframt að þeir væru að upplifa spennufall eftir atburði síðustu mánaða.
Þremenningarnir voru líka spurðir út í umdeilt atvik þegar þeir lyftu upp palestínskum borðum á meðan sjónvarpsmyndavélum var beint að þeim á sama tíma og stig voru kynnt eftir atkvæðagreiðslu.
Þeir sögðu að það hefði ekki verið fyrirséð að þeir myndu nota fánana við þetta tækifæri. En það hafi verið nokkuð fyrir því haft að ná í fánana. Fulltrúar Iceland Music News, sem er gervifréttasíða, hafi náð í fánana í Ramallah. Fánarnir hafi siðan verið fengnir úr leikfangabúð og verið smyglað yfir landamærin til Ísrael. Matthías lýsti því hvernig hann hafði geymt fánann ofan í stígvélinu á meðan stigin voru kynnt. Sem betur fer hafi borðinn snúið rétt þegar hann var í mynd.
Í viðtalinu lýsti Klemens því þegar palestínskir vinir Hatara buðu þeim að fara til Hebron. Þannig gætu þeir séð aðskilnaðarstefnuna með skýrustum hætti. Það hafi verið svakaleg upplifun að sjá Hebron. Allt verið vaktað af hermönnum. „Maður fann hvað það er rafmögnuð stemningin milli Palestínumannanna sem búa þarna og svo hermanna og landtökufólksins.“