Auður Alfa Ólafsdóttir, verkefnastjóri verðlagseftirlits Alþýðusambandsins, segir fjölmargar ábendingar hafa borist ASÍ um verðhækkanir í kjölfar nýrra kjarasamninga. ASÍ hefur sett á fót nýjan hóp á Facebook sem ber heitið Vertu á verði - eftirlit með verðlagi.
Þar geta neytendur sett inn ábendingar og fylgst með fyrirtækjum sem hækka verð og fyrirtæki geta sett inn yfirlýsingar um að verð á vörum verði ekki hækkað hjá þeim. Auður Alfa segir að verðlagsvitund almennings sé að aukast og vonast hún til þess að hópurinn á Facebook auki aðhald með fyrirtækjum.
„Meðfram þessu erum við að mæla verð og gerum tíðar verðlagsmælingar, þannig við munum halda því áfram. Við erum að mest að skoða verð á matvöru og á þeim þáttum sem vega hvað þyngst í innkaupum Íslendinga. Matvara vegur þar þyngst og við gerum tíðar verðlagsmælingar á matvöru. Við förum ekki inn í þessar pínulitlu verslanir en við förum inn í þessar stóru keðjur og mælum verð þar,“ sagði Auður Alfa Ólafsdóttir í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.