Mannskæðasta flugslus í sögu Íslands varð í Héðinsfirði 29. maí 1947 þegar Douglas-vél Flugfélags Íslands flaug á Hestfjall yst í firðinum og 25 manns létust. Fjallað er um þetta hörmulega slys í fjórða þætti af Siglufirði – sögu bæjar sem er á dagskrá RÚV í kvöld.

Flugvélin var á leið til Akureyrar en flaug á fjallið í mikilli þoku og dimmviðri. Leitin að vélinni í snarbröttu og klettóttu fjallinu var erfið og aðkoman hrikaleg, lík á víð og dreif, flest þeirra illa leikin. Vélin var í tætlum og 21 farþegi, þar af þrjú börn, og fjögurra manna áhöfn fórust. Hjalti Einarsson vélvirki var níu ára gamall þegar hann sá vélinga fljúga fram hjá Siglunesi. „Hún kemur fyrir hornið, er yfir sjónum og hún er fljót að fara framhjá. Maður sá fólkið alveg í gegnum gluggana, vélin var full. Svo sé ég hana eitthvað austur eftir og þá er þokan að síga niður og lendir á sjónum. Þá hverfa bæði vélin og farþegarnir. Svo vissi maður ekkert meira fyrr en það er farið að hringja eftir henni strax um kvöldið.“

Hjalti Einarsson var sá síðasti sem sá flugvélina áður en hún fórst.

RÚV

Hóað var í allan liðtækan mannskap frá Siglunesi, Siglufirði og Ólafsfirði til að leita að vélinni sem fannst ekki fyrr en daginn eftir. „Þetta hefur verið hræðileg sjón að koma að þessu, vélin hafði lent á klettabelti og klessist þar saman,“  segir Hjalti en faðir hans tók að sér að manna bátinn sem flutti líkin yfir fjörðinn. „Þegar pabbi kom heim var hann eitthvað flekkóttur á bakinu og öxlunum. Ég held að fötin hafi öll verið tekin og sett í eldavélina og brennd með það sama. Hann fór allavega aldrei í þau aftur. Hann talaði eiginlega aldrei neitt um þetta.“

Rætt er við Hjalta Einarsson í fjórða þætti af Siglufirði – sögu af bæ sem er á dagskrá RÚV 20:05 í kvöld.