Maní Shahidi og fjölskyldu hans verður ekki vísað úr landi á morgun. Claudie Ashonie Wilson, lögmaður fjölskyldunnar, staðfesti þetta við Vísi í kvöld. Hann var lagður inn á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans í kvöld vegna alvarlegrar vanheilsu.

Vísir segir lækna þar leggjast gegn því að hann verði fluttur úr landi, og hefur lögregla staðfest að það verði ekki gert í fyrramálið.

Um tvö hundruð manns mótmæltu brottvísun Manís og foreldra hans. Maní er 17 ára íranskur trans-strákur, og óttast mjög um afdrif sín í heimalandinu verði hann sendur aftur þangað. Fjölskylda hans kom til Íslands fyrir tæpu ári og sótti um alþjóðlega vernd. Því var synjað og átti að senda þau úr landi í fyrramálið. Héðan átti fjölskyldan að vera send til Portúgal, þaðan sem líkur voru á að hann yrði sendur áfram til Írans. Claudie sagði í sjónvarpsfréttum í kvöld að stjórnvöld væru bundin af barnasáttmálanum og jafnrétti ætti að gilda gagnvart öllum börnum innan lögsögu Íslands. Hún sagði Maní finna í fyrsta sinn í lífi sínu fyrir öryggi, og hann hafi loks getað tjáð sig um hver hann væri í raun.