Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að málefnin skipti mestu máli í ríkisstjórnarmyndun. Þar beri mest í milli þeirra og Sjálfstæðisflokksins. Katrín leggur áherslu á að hefja þurfi uppbyggingu í bæði heilbrigðis-og menntamálum, sem séu eitt af stóru verkefnunum framundan.
Glötuð tækifæri
„Okkur finnst mikilvægt að hefja þessa uppbyggingu, bæði í heilbrigðismálum en ekki síður í skólamálum, sem við höfum haft talsverðar áhyggjur af. Þar er auðvitað gríðarlegt verk óunnið, bæði hvað varðar háskólana en líka framhaldsskólana. Við teljum að það hafi glatast ákveðið tækifæri í að hefja uppbyggingu því þetta er líka svo mikil undirstaða fyrir atvinnulíf og efnahag,“ sagði Katrín í viðtali í Morgunútvarpinu í morgun.
Mikið verk sé óunnið til að bæta kjör aldraðra og öryrkja, þrátt fyrir kjarabætur núverandi ríkisstjórnar til þessara hópa skömmu fyrir kosningar.
Þá hafi Vinstri græn áhyggjur af aukinni misskiptingu í samfélaginu. Flokkurinn hafi gagnrýnt þær skattabreytingar sem gerðar hafi verið og tölur sýni að skattbyrðin hafi minnkað á þá tekjuhæstu og þyngst á þá tekjulægstu. „Þetta er nákvæmlega öfugt við það sem við viljum sjá gert. Við viljum sjá skattkerfi sem stuðlar að auknum jöfnuði og við leggjum líka áherslu á að auðlindirnar komi þar inn í, að við tölum eðlilegt gjald af þeim.“
Skattsvik séu samfélagsmein
Katrín segir Vinstri græna vilja fara í aðgerðir gegn skattsvikum og skattaundanskotum. Fólk sé orðið meðvitaðra um þessi mál frá því í vor. „Það hefur verið slegið mat á þetta, að það séu um 80 milljarðar sem hér í raun og veru fari út úr kerfinu með þessu móti. Þetta lítum við bara á sem samfélagsmein sem þurfi að ráðast gegn.“
Þrír vilja leiða
Katrín segir engar formlegar stjórnarmyndunarviðræður hafnar en allir hafi rætt saman undanfarna daga. Það hafi verið fyrirsjáanlegt að flókin staða gæti komið upp að loknum kosningum.
Forsíða Fréttablaðsins kom til tals í Morgunútvarpinu, en þar er því slegið upp að á fundi Katrínar með Benedikt Jóhannessyni, formanni Viðreisnar og Óttarri Proppé, formanni Bjartrar framtíðar, í gær hafi meðal annars verið viðruð sú hugmynd að ríkissjórn yrði mynduð með Sjálfstæðisflokki undir forystu Benedikts. „Það liggur fyrir að Benedikt hefur sóst eftir þessu umboði að leiða stjórnarmyndunarviðræður og ég hef hitt og rætt við alla aðra formenn. Það liggur líka fyrir að ég hef sóst eftir þessu umboði sem og Bjarni Benediktsson sem fékk umboðið. Það liggur fyrir að það eru allavega þrír reiðubúnir að leiða þessar viðræður, sem er kannski hálf kúnstugt í ljósi þess hversu flókið þetta er. Það er ákveðin sjálfseyðingarhvöt fólgin í því.“
Mál lifi lengur með samstöðu
Katrín hefur bæði setið í minnihlutastjórn og í ríkisstjórn sem hafði nauman meirihluta og þannig þurft að treysta á samstöðu í þinginu um mál. Hún segir það hafa sýnt sig að mál unninn í breiðri sátt hafi verið líklegri til að lifa. Á hinum Norðurlöndunum sé miklu meiri hefð fyrir minnihlutastjórnum sem læra mætti af.
Hér á Íslandi hafi verið hefð fyrir meirihlutaræði. „En það er spurning um það hvernig menningu við iðkum inni á þingi, hvort við reynum að afla sem breiðastrar sáttar um þau mál sem við erum að leggja fram eða hvort við ætlum bara að styðjast við þessa einföldu þumalputtareglu. Ég held nú og vona að það sé stemmning fyrir því að breyta þessum vinnubrögðum, en ég held að það þurfi að vanda það vel.“