Gagnrýnendur Kiljunnar eru sammála um að skáldsagan Málleysingjarnir eftir Pedro Gunnlaug Garcia sé eitt metnaðarfyllsta byrjendaverk sem sést hafi á Íslandi um nokkra hríð.

Í bókinni eru sagðar sögur tveggja fjölskyldna, rúmenskrar og íslenskrar, sem tengjast á endanum í gegnum þræði vísindaskáldskapar og töfraraunsæis. Þá þykir það harla óvenjulegt að fyrsta bók eftir ungan höfund spanni næstum 500 blaðsíður eins og Málleysingjarnir. „Þetta er saga sem nær bæði að vera ótrúlega þroskað byrjendaverk og líka ungæðislegt,“ segir Þorgeir Tryggvason. „Það birtist ekki síst í því að þarna eru verulega ógeðslegir hlutir í gangi og hann nýtur þess greinilega að gusa vessum hingað og þangað. Ungæðishátturinn birtist svolítið í því en að öðru leyti er þetta skrifað af feikilegu öryggi.“

Kolbrún Bergþórsdóttir tekur undir með Þorgeiri um verkið sé gríðarlega metnaðarfullt. „Höfundinum liggur óskaplega mikið á hjarta og mér leið dálítið eins hann hugsaði með sér að hann myndi aldrei skrifa aðra skáldsögu, þannig hann hafi hent öllum hugmyndunum í eina bók. Mér finnst hlutinn sem gerist í Rúmeníu áberandi betri en sá sem gerist á Íslandi. Það eru algjörlega magnaðar lýsingar þar.“ Kolbrún segir bókina eina áhugaverðustu skáldsögu sem komi út fyrir jólin. „Það tekst ekki allt í henni, en það besta er brilljant.“ Þorgeir tekur undir þetta. „Þetta er rosalega mögnuð bók. Þessi ógnvekjandi stærð hættir að vera það, bókin er mjög góð aflestrar.“ Þau segja nokkuð ljóst að miklar væntingar séu gerðar til Pedro Gunnlaugs í framtíðinni. „Nú er bannað að sökka,“ segir Þorgeir glaðbeittur að lokum.