Það væri sniðugt að nýta skógarkerfil í stað þess bara að bölva honum, segir Ásta Þórisdóttir sem býr á Hólmavík. Ásta hefur lengi haft áhuga á að nýta jurtir og í námi í hönnun við Listaháskólann ákvað hún að gefa plöntum sem hafa verið sagðar óæskilegar sérstakan gaum.

„Ég hef ekki skilið af hverju einhverjar plöntur eru slæmar á meðan aðrar eru góðar,“ segir Ásta. 

Ásta gerði könnun á því hvaða plöntur væru verst liðnar og niðurstaðan var afdráttarlaus. „Skógarkerfill. Hann fékk mjög afgerandi andvinsældakosningu. Svo er þetta lúpína, brenninetla, hóffífill, túnfífill, haugarfi og njóli, bjarnarkló og klóelfting,“ segir Ásta. 

Ásta vildi kanna hvort ekki mætti nýta skógarkerfil og fékk rótina næringarefnagreinda hjá Matís. „Miðað annað rótargrænmeti sem við erum að rækta á Íslandi er hann bara miklu næringaefnaríkari, miklu kolefnaríkari, prótein og steinefni. Samanborið við rófur, gulrætur og kartöflur. Og það væri sniðugt ef fólk væri að nýta hann í staðinn fyrir að vera bara að bölva honum. - Það væri hægt að nýta hann helling, búa til mjöl og brugga úr honum og gera alls konar.“

Ásta hefur búið sér til eins konar hliðarsjálf, arfistann, sem er ætlað að kenna fólki hvernig nýta megi jurtir, þar á meðal skógarkerfilsrót. „Ef þú getur horft á þessa plöntu öðru vísi en að þetta sé andstyggilegasta planta landsins, eða svo gott sem, þá er ég rosa glöð, þá er ég búin að ná einhverju.“