Tófan er klók. Hún syndir í hólma og stekkur yfir girðingar sem hún gerði ekki áður, segir æðarbóndi í Dýrafirði. Bóndi í Önundarfirði nýtir sér klókindi mannsins og vaktar æðarvarp með 360 gráðu myndavél.

Vakað í fimmtíu nætur í meira en sextíu ár

Klukkan er fimm að morgni í Dýrafirði og ábúendur á Mýrum hafa verið á fótum í alla nótt. „Við vökum fimmtíu nætur á hverju vori,“ segir Valdimar Gíslason, æðarbóndi á Mýrum í Dýrafirði. Valdimar er að verja æðarvarp með um fimmtán hundruð hreiðrum, fyrst og fremst fyrir tófunni - sem vill vera á ferli á nóttunni. Þetta hefur hann gert, þó ekki einsamall, í meira en sextíu ár. 

Tófan farin að synda og stökkva yfir girðingar

„Þetta eru nokkrir kílómetrar og mikil yfirferð og mikið svæði til að verja fyrir tófunni,“ segir Valdimar, sem er klók og lærir á aðferðir mannsins. Hún stingur sér til dæmis til sunds sem Valdimar segir að hún hafi ekki gert áður fyrr.

„Þá var hægt að verja varpið með vatni í hólmum og svona. En núna nýtur hún þess að stökkva yfir girðingarnar og synda út í hólma og hreinsa þar allt upp,“ segir Valdimar.

Vaktar varpið með 360° myndavél

Maðurinn beitir líka brögðum og Björgvin, æðarbóndi í Önundarfirði, hefur komið fyrir 360° myndavél til að fylgjast með varpinu hvaðan sem er - og gasbyssu til að gera læti. „Þetta hefur breytt öllu. Þá get ég verið einn að vakta og þarf ekki mannskap með mér, en auðvitað þarf ég að vera vakandi til að fylgjast með,“ segir Björgvin Sveinsson, æðarbóndi í Innri-Hjarðardal í Önundarfirði. Ef þú sæir tófu núna, hvað myndirðu gera þá? „Þá myndi ég geri einhver óhljóð og þá færi ég burtu. Og get bjargað mér á því þangað til að ég kem,“ segir Björgvin.

Semja vísur um atburði næturinnar

Og Björgvin getur fylgst með varpinu þegar hann skellir sér í kaffi við hringborð dauðans, tófudauðans, hjá Eddu á Mýrum - sem er alla fimmtíu morgnana klukkan sex. Þá eru fluttar vísur um atburði næturinnar sem hlaupa nú líklega á þúsundum.