„Ég þurfti nú að rífa hana úr höndunum á börnunum mínum til að komast í að lesa hana,“ segir Sunna Dís Másdóttir um hina undurfögru Bók um tré sem farið hefur sigurför um heiminn á skömmum tíma.

Í Bók um tré eftir pólska náttúrufræðinginn Wojciech Grajkowski er saga trjánna rakin frá örófi alda fram á þennan dag. Skoðað er hlutverk þeirra í sögunni, menningu, listum, þjóðsögum og náttúrunni sjálfri. Einstök listaverk myndskreytisins Piotr Socha prýða hverja opnu bókarinnar. Bókin var til umfjöllunar í Kiljunni þar sem gagnrýnendurnir Þorgeir og Sunna Dís Másdóttir lýstu hrifningu sinni. 

„Ég þurfti nú að rífa hana úr höndunum á börnunum mínum til að komast í að lesa hana fyrir þennan þátt. Ég þarf örugglega að skila henni aftur síðan. Hún er alveg stundum á mörkunum, sumar opnurnar eru ansi hreint vísindalegar með flókin hugtök og heiti,“ segir Sunna Dís og vísar í að bókin sé ekki bara barnabók heldur fræðibók.

Þetta er svona þegar náttúrufræðingarnir sem skrifa bókina ráða ekki við sig og fara að útskýra fyrir manni hvaða laufblöð séu í rauninni ekki laufblöð eða eitthvað slíkt,“ segir Þorgeir Tryggvason sem tekur það fram að höfundar finni svo sína fjöl og finni góða útfærslu á efninu. „Hver síða er eitt þema, dýr sem búa í trjám, dýr sem líta út eins og laufblöð, hvernig er hægt að rekja mannkynssöguna í gegnum árhringi á risafurum,“ segir Þorgeir.

Egill Helgason er einnig hrifinn af bókinni og ítrekar hversu tré eru mikilvæg. „Ekki bara vegna loftslagsbreytinga. Tré kenna okkur einhvern veginn rótfestu og stillingu,“ segir Egill og Sunna Dís tekur undir, „maður fyllist lotningu við að lesa þessa bók.“