Halldóra Geirharðsdóttir hefur komið víða við í menningar - og listalífinu. Hún leggur áherslu á að hafa áhrif með list sinni og segir að stundum taki það tíma að átta sig á því hver áhrif hvers hlutverks, hverrar sýningar skuli vera. Halldóra segir hér frá eigin áhrifavöldum í samnefndum þætti.
Sunnudaginn 29. mars segir Halldóra Geirharðsdóttir frá áhrifavödlum sínum í þættinum Áhrifavaldar á rás 1.
Halldóra er leikaramenntuð en var þegar á menntaskólaárunum orðin þekkt sem félagi í hljómsveitinni Risaeðlan og ferðaðist með henni víða um heim. Árið 1991 tók hún svo af skarið og þreytti inntökupróf í Leiklistarskóla Íslands þaðan sem hún útskrifaðist árið 1995.
Eftir að námi lauk hefur Halldóra leikið ótal hlutverk í leikhúsi, kvikmyndum og auglýsingum. Hún á sér annað sjálf, trúðinn Barböru, sem hefur víða komið fram og er reglulegur kynnir á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands fyrir börn. Halldóra hefur einnig komið sér um karlmannlegu hliðarsjálfi Smára sem treður gjarnan upp með vini sínum, Hannesi, auk þess sem Smári lék Vladimir í leikverki Beckets Beðið eftir Godot. Halldóra vill sannarlega hafa áhrif með list sinni og leitast ævinlega við að setja leik sínum og leiksýningum markmið í stærra samhengi þess að lifa hér á jörðinni.
Meðal eftirminnilegra sýninga Halldóru eru fyrsta sýning hennar sem fullnuma leikari, leiksýningin Ormtunga sem hún og Benedikt Erlingsson þróuðu og sýndu í Skemmtihúsinu við Laufásveg árið 1996 sem og fjöldi leiksýninga hjá Borgarleikhúsinu, þar sem hún hefur verið fastráðin frá árinu 1996. Má þar nefna hlutverk í verkum eins og Vetrarævintýri, Draumleikur, Dauðasyndirnar, Fólkið í blokkinni, Jesús litli, Dúfurnar og Elsku barn en fyrir öll þessi hlutverk hlaut hún tilnefningu til Grímunnar auk þess sem hún ásamt meðhöfundum sínum hlaut Grímuverðlaun fyrir Jesú litla, leikrit ársins 2010. Þá lék Halldóra Fíflið í Lé konungi, Sigurlínu í Sölku Völku. Hún lék í samtímaverkunum Gullregni eftir Ragnar Bragasona, ... and Björk ofcourse eftir Þorvald Þorsteinsson og í þríleik þeirra Jóns Atla Jónassonar og Jóns Páls Eyjólfssonar sem samanstóð af verkunum Þú ert hér, Góðir Íslendingar og Zombíljóðin. Hún lék Don Kíkóta í samnefndu leikverki og Vladimir í Beðið eftir Godot og nú síðast danskennarann frú Wilkinson í Billy Elliot . Halldóra hefur hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir list sína. Halldóra hefur leikstýrt tveimur försum, Jóni og Hólmfríði árið 2002 og Beint í æð 2014. Hún hefur leikið í fjölda kvikmynda, sjónvarpsþátta og auglýsinga. Hún er eftirsóttur skemmtikraftur og treður þá oft upp sem Smári ásamt vini hans Hannesi. Þá er Halldóra líka þekkt í hlutverki trúðsins Barböru. Halldóra lærði í mörg ár á saxófón og notfærir sér stundum þá kunnáttu sína á sviði. Þá hefur Halldóra lagt ýmsum samfélagsverkefnum lið með list sinni.