Fréttir af bandaríska skopmyndatímaritinu MAD magazine hafa ekki farið vel ofan í aðdáendur því samkvæmt yfirlýsingu ritstjóra verður útgáfu á nýju efni blaðsins hætt eftir 67 ára starfsemi.
„Þetta er eitt af sterkustu áhrifavöldunum í gríni,“ segir Hugleikur Dagsson myndasöguhöfundur og grínisti. „En það er ekkert sérstaklega lofsungið því tímaritinu hefur alltaf verið tekið sem sjálfsögðum hlut, alltaf í bakgrunni.“ MAD var stofnað af Harvey Kurtzman og hefur frá árinu 1952 verið eitt af lykiltímaritum í háðsádeilu og satíru í Bandaríkjunum þar sem stjórnmál og poppmenning samtímans hafa verið skotspónninn.
Sérkenni blaðsins hefur lengst af verið barnslegt glottið og freknurnar á Alfred E. Neuman sem prýðir forsíðu flestra tölublaða tímaritsins í hinum ýmsu gervum. Áhrif blaðsins hafa farið dvínandi með árunum og nú virðist sem það sé endanlega á leið í gröfina. Það má velta fyrir sér hvort ekki sé lengur þörf á slíkum blöðum í okkar samtíma eða hvort þetta sé einfaldlega kafli í svanasöng hefðbundinna prentmiðla.
Fjölmiðlar víða um heim eru þegar farnir að greina áhrif MAD og syrgja brotthvarf þess af sviði grínsins. Vefútgáfa breska blaðsins Guardian tók meðal annars saman orð þekktra grínista og blaðamanna um blaðið á samfélagsmiðlum þar sem einhverjir töluðu hreinlega um endalok satírunnar. Hugleikur Dagsson myndlistamaður, uppistandari og handritshöfundur varð fyrir miklum áhrifum tímaritsins og ræddi við Tengivagninn um sögu þess, áhrif og brotthvarf.
Heyra má viðtal við Hugleik Dagsson í spilaranum hér að ofan.