„Bret Easton Ellis er kannski að verða gamall tuðandi karl en hann er skemmtilegur og heillandi. Hann má tuða eins og honum sýnist fyrir mér,“ segir Jóhannes Ólafsson um ritgerðasafnið White þar sem rithöfundurinn úthúðar þúsaldarkynslóðinni.


Jóhannes Ólafsson skrifar:

Áður en ég las bókina White eftir bandaríska rithöfundinn Bret Easton Ellis hlustaði ég á stórt og mikið útvarpsviðtal við höfundinn þar sem hann lýsti því af hverju hann ákvað að bregða út af vana sínum og gefa út óskáldaða bók um sjálfan sig og eigin hugleiðingar frekar en skáldsögu. Og áður en ég byrjaði að lesa bókina White eftir Bret Easton Ellis var ég með mjög nákvæma mynd í hausnum af því hvernig væri að lesa bókina. Margir fjölmiðlar í Bandaríkjunum, sér í lagi þeir frjálslyndu, voru byrjaðir strax í sumar að bregðast við efni bókarinnar, sem kom út í vor, hrópa hástöfum og úthúða þessum 55 ára gamla höfundi fyrir að tjá sig opinskátt. Ung og frjálslynd forréttindastétt, þúsaldarkynslóðin sem Ellis talar mikið og illa um í bókinni, var brjáluð og hinn glerharði og skeytingarlausi höfundur lét það sem vind um eyru þjóta. Ég kemst varla hjá því að tengja sjálfur við þúsaldarkynslóðina, auk ótal annarra skilgreinginga, því eins og einhverjir hlustendur hafa eflaust tekið eftir gengur veröldin, sem er, mikið út á það. Skilgreiningar. Og áður en ég las bókina White gerði ég eins og nettröllin gera þegar botnlaus rifrildi byrja á netinu. Ég poppaði.

Bret Easton Ellis er fæddur 1964 í Los Angeles í Bandaríkjunum og tilheyrir hinni svokölluðu X-kynslóð, hann er Gen Exer eins og hann orðar það sjálfur. Ellis er frægastur fyrir að skrifa skáldsögur, nánar tiltekið skáldsögur sem stuða og hræra, nánar til tekið Less than Zero, Lunar Park og American Psycho og fleiri. Sú síðastnefnda er eflaust hans frægasta og um leið alræmdasta bók, sem fjallar um Wall Street-uppann Patrick Bateman sem er djúpt sokkinn í útlitsdýrkun, merkjavörur og framapot, hlustar á vinsælustu tónlistina og borðar á flottasta veitingastaðnum en er um leið sjúkur raðmorðingi, rasisti og kvenhatari, eða var það kannski bara allt í hausnum á honum?

Í nýjustu bók sinni, áðurnefndri White, segist Bret Easton Ellis hafa fengið ýmsar hugmyndir að skáldsögum og hafa ætlað að skrifa eina slíka en slysast eiginlega til þess að setja saman greinasafn með hugleiðingum um allt og ekkert. White er að hluta til sjálfsævisaga, að hluta til ritgerðasafn um kvikmyndir og poppmenningu en er einnig full af vangaveltum um samfélagsmiðla, kynslóðabil, sjálfsmyndarpólitík og auðvitað kemst hann ekki hjá því að tala um kjörið á Donald Trump. Hann segist reyndar ekki skilgreina sig sem pólitískan höfund, sem er fáránlegt því hann hefur alltaf verið það. En með því á hann líklega við þessi hefðbundnu tvíflokkastjórnmál, hægri/vinstri, íhald/frjálslyndi o.s.frv.  

Í þeirri útgáfu bókarinnar sem ég las gefur hann sjálfsmyndarpólitík nútímans, eða identity politics, fast olnbogaskot. Þeirri hugmynd að skilgreina stjórnmálakompás sinn út frá því hver þú ert sem einstaklingur og oftar en ekki tilheyrir jaðarsettum, undirokuðum hópi fólks sem vill aukið vægi og valdeflingu í samfélaginu. Nafn bókarinnar og höfundarins er skrifað svörtum stöfum á hvíta kápu en með hvítu, nær ólæsilegu letri stendur, í þýðingu: 

Rithöfundur 

gagnrýnandi 

elskhugi 

hatari 

tístari 

opinskár 

ögrandi 

hvítur 

karl  

með forréttindi

Samkynhneigðin skilgreindi hann ekki

Ellis segir á einum stað í White um sjálfsmyndarpólitík og skilgreiningar í lauslegri þýðingu: „En þetta er öld þar sem allir fá svo þungan dóm með augum  sjálfsmyndarpólitíkur að ef maður streitist á móti hjarðhugsun „hinnar framsæknu hugmyndafræði“ sem leggur til að allir séu með nema þeir sem þora að spyrja spurninga, er maður dauðadæmdur. Allir þurfa að vera eins og bregðast eins við öllum listaverkum, hreyfingu eða hugmynd og ef maður neitar að ganga til liðs við já-kórinn verður maður merktur sem rasisti eða kvenhatari. Þetta er það sem gerist við menningu þegar hún missir áhugann á list.“

Ellis er hvorki rasisti né kvenhatari en það er heldur ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er skilgreiningin, segir hann, að þegar einhver segir eitthvað vont er hann vondur. Merkimiðar sem gera það auðveldara í upplýsingahafinu og samfélagsmiðlaklikkinu að vita hver hefur hvaða skoðanir, hver er hvað, því annars sætum við uppi með það sem mannlífið er í raun: óreiða. Gott dæmi um skilgreiningu sem Ellis talaði lengst af aldrei um er kynhneigð hans. Frá 2005 hefur hann talað opinskátt um samkynhneigð sína og að hann eigi kærasta. En ástæðan fyrir því að það hvarflaði ekki að honum að „koma út“ í fjölmiðlum fyrr var einfaldlega sú að kynhneigð hans var númer sjö eða átta á lista yfir það sem skilgreindi hann og hann hefði aldrei tekið það í mál að American Psycho eða aðrar bækur hefðu flokkast sem „hommabókmenntir“ í bókabúðum. Hann segir að þetta hafi einfaldlega ekki skipt máli fyrir rithöfundarferil hans og að hann vildi vera hluti af meginstraumnum.

Allt þetta er Ellis mjög umhugað um í White, það hvernig sumir útiloka listaverk með því að segjast „ekki tengja við þetta“, með öðrum orðum „ég ætla ekki og vil ekki sjá þetta“. Þetta jaðarsetur ekki bara listamenn, að mati Ellis, heldur okkur öll og er í eðli sínu fasískt. Þegar allir eru komnir djúpt inn í bergmálshelli, sápukúlu eigin skoðana með fínpússaða siðferðislega afstöðu gagnvart öllu erum við kominn inn í hinn illa merkta botnlanga samfélagsmiðlanna, miðla sem Ellis viðurkennir að séu enn í mótun en við séum skammt á veg komin við að skerpa á regluverkinu í kringum þá. Þarna í botnlanganum, þar sem hópur fólks getur aðeins tengt við ákveðnar hugmyndir og er ekki tilbúið að setja sig í spor annarra, eigum við á hættu að glata hæfileikanum til þess að finna til samkenndar hvert með öðru. Þar skýtur Ellis föstum skotum á hið svokallaða „woke“-fólk, fólk sem er ofurupplýst um öll málefni og með allar nýjustu skoðanirnar. Það á ekki að koma neinum á óvart að Ellis skrifi á þennan hátt. Maður sem hefur litið á list sem stuðtæki allan sinn ritferil, að list sé eitthvað sem á að nota til þess að ögra mörkum, kanna nýjar slóðir og slá fólk út af laginu. Hlæið að öllu eða þið endið á því að hlæja að engu, ráðleggur Ellis.

Gagnrýnir hreintrúarstefnu

Ellis er skoðanaglaður, getur verið kjaftaskur, sem dansar eftir eigin takti og dettur aldrei út. Hann er stundum fúll á móti týpan og myndi hiklaust spyrja: „Má ekkert lengur?“ en gerði það á smekklegan hátt og færði listilega rök fyrir máli sínu. Hann víkur sér ekki undan því að svara neinu eða neinum heldur veður einmitt beint í efnið, er stundum í mótsögn við sjálfan sig en ómögulegt væri að reka þá mótsögn aftur ofan í hann.

Það sem hefur vakið hvað mesta athygli lesenda er að í White heldur Ellis áfram að skamma ungu kynslóðina. Á tímum Less than Zero og American Psycho var það hans eigin veruleikafirrta og tóma kynslóð, neyslan og efnishyggjan og trúin á kaupmennsku og „endalok sögunnar“. Nú skammar hann ekki sína kynslóð heldur yngri kynslóð, þúsaldarkynslóðina, sjálfsmyndarpólitíkina, fórnarlambsvæðinguna, móðursýkina yfir Trump og læk-menninguna þar sem allt er frábært, bannað að gagnrýna. Þetta fer allt saman þveröfugt ofan í marga sem hafa gagnrýnt bókina harðlega en Ellis haggast ekki. Hann bendir þar að auki á að hann birti grein í stóru tímariti fyrir fjórum árum þar sem hann kallar sömu kynslóð Generation Wuss, eða aumingjakynslóðina, en enginn kvartaði þá.

Bret Easton Ellis fer hratt yfir sögu en gerir það ágætlega. Hann lýsir vel því vel sem honum finnst um fólk af hans kynslóð, Kynslóð X, uppvöxt í þjóðfélagi sem var alls ekki hannað fyrir börn og var fullkomlega veraldlegt, eða línulegt. Kynslóð sem þurfti að skipta yfir í stafrænam heim frá grunni og situr uppi með það að mega nánast ekki tjá sig öðruvísi en að vera merktur, skilgreindur og stundum dæmdur. Hann gagnrýnir hreintrúarstefnu samfélagsins sem hann telur að stjórni allri umræðu um siðferði og dómgreind. Rökræður séu byggðar á vel slípuðum valdastólpum lítillar elítu sem má ekki hallmæla. Bret Easton Ellis er kannski að verða gamall tuðandi karl en hann er skemmtilegur og heillandi. Hann má tuða eins og honum sýnist fyrir mér. 

Stærsti glæpurinn að traðka niður ástríðu

Meginþema bókarinnar White er útvötnun. Hvernig hlutir missa merkingu sína með örvæntingarfullri leit að einni merkingu, að allt sé rétt nema þeir sem spyrja óþægilegra spurninga. Að deilur séu óvinsælar. Að skoðun allra skipti jafn miklu máli og hún eigi að heyrast. En þegar „allir segjast vera sérfræðingar,“ segir Ellis, „með rödd sem á rétt á því að heyrast verður hver rödd minna virði. Það eina sem við höfum gert er að stilla okkur upp við vegg - þannig að hægt sé að selja okkur, markaðsetja, miða að og hafa af okkur gögn.“ 

Við erum öll ótrúlega mörg, ólík, gölluð, þversagnakennd og ófullkomin. Við munum líklega aldrei komast undan því með því að læka hluti og það eina sem við gerum er að mata fyrirtækja- og auglýsingavélina sem krefst þess að við séum glöð, setjum upp þumalinn og deilum einhverju jákvæðu en á sama tíma eigum við að iðka sjálfstæða hugsun í ofurhreinskilnu orðsporshagkerfi þar sem allt er dæmt. Allt kirfilega merkt eftir geðþótta hvers og eins, meira að segja hvert annað. Þeim sem afhjúpa galla sína eða óvinsælar hugmyndir er úthýst eða þau ritskoðuð af öðrum sem eru skíthræddir við fylgispekt við fyrirtækjavaldið. Á einum stað segir Ellis: „Stærsti glæpur sem framinn er í þessum nýja heimi er að traðka niður ástríðu og þagga niður í einstaklingnum.“  

Ef til vill er það bara svo að við öll, sem tegund, erum í óðaönn alla ævina að gera allt sem í okkar valdi stendur til að – með orðum sjálfs Patrick Batemans – falla í hópinn. Ef til vill er hip að vera skver? En ég bara spyr.