Samkvæmt drögum að frumvarpi um ný lögreglulög verður auðveldara fyrir almenning að koma á framfæri kvörtunum vegna brota og framferðis lögreglumanna. Eftir sem áður munu lögreglumenn rannsaka aðra lögreglumenn þegar um er að ræða meint refsiverð brot.

„Hvernig á að efla eftirlit með lögreglu“ var yfirskriftin á málþingi í Háskólanum í Reykjavík.  Það hefur lengi verið rætt og margir hafa hvatt til virkara eftirlits með lögreglu. Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, sagði í upphafi málþingsins að flestir teldu það bæði réttlátt og sanngirnismál. Nefnd sem ráðherra skipaði í fyrra lagði til að skipuð yrði þriggja manna stjórnsýslunefnd sem fengi það hlutverk að taka á móti kvörtunum. Þessa niðurstöðu er að finna í drögunum að nýjum lögreglulögum. Í stuttu máli yrði verkefni nefndarinnar að taka á móti kvörtunum og kærum vegna hugsanlegra brota lögreglumanna í starfi og annarrar framkomu þeirra. Nefndinni er falið að fara yfir málin og vísa kvörðunum sem ekki varða brot til viðkomandi lögregluembættis og sjá til þess að bragarbót verði gerð. Hins vegar á hún að vísa kærum sem tengjast meintum refsiverðum brotum til héraðssaksóknara sem fer með rannsókn málsins. Í lögum, sem nýverið voru samþykkt á Alþingi, er héraðsdómara falið að rannsaka mál sem varða lögregluna. Fram að því var það ríkissaksóknari sem sá um rannsóknina. Ríkissaksóknari sjálfur hefur gagnrýnt þá tilhögun og margir hafa gagnrýnt að hann hefði þessi mál á sínu borði. Einkum hefur verið gagnrýnt að ríkissaksóknari tengist mjög lögreglunni á marga vegu og til að sinna rannsóknum hefur hann þurft að kalla til lögreglumenn. Lögreglumenn hafa því rannsakað aðra lögreglumenn.  Ástæðan fyrir því að gangskör er nú gerð að því að efla eftirlit og leggja fram skýrar línur er að umboðsmaður hvatti til þess fyrir nokkru og sömuleiðis Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari. Hún lagði til að sjálfstæð stofnun tæki að sér rannsókn mála sem tengdust lögreglunni. Það gerðir hún til að auka sjálfstæðið gagnvart lögreglunni

„Traust og trú borgaranna hlýtur að verða meira þegar þegar það er ekki lögreglan sjálf sem er að rannsaka brotin,“ segir Sigríður.

Hún telur samt sem áður að það sé framfaraspor að eftirlitsnefnd verði sett á laggirnar.

„ Hún verður auga almennings á kerfið til að sjá hvort það er að virka, bæði vegna rannsókna og ekki síst vegna kvartana.“