Þegar hópurinn, sem bjargað var við Langjökul í byrjun árs, kom í hús í Gullfosskaffi, biðu lögmenn hans. Tilgangurinn var að bjóða þeim lögmannaþjónustu ef fólkið hygðist leita réttar síns vegna ferðarinnar. Þá hringdu lögmenn í Landsbjörg til að reyna að hafa upp á nöfnum farþeganna, að sögn Þórs Þorsteinssonar, formanns Landsbjargar.
Gefin hafði verið út gul veðurviðvörun daginn sem um fimmtíu manna hópur ferðamanna og leiðsögumanna á vegum Mountaineers of Iceland lenti í ógöngum í vélsleðaferð á Langjökli. Björgunarsveitir komu þeim í hús og voru margir í hópnum orðnir hraktir og kaldir, sumir með kalsár.
Eins og áður sagði biðu lögmenn ferðalanganna þegar þeim var bjargað í hús í Gullfosskaffi og líka þegar hópurinn kom til Reykjavíkur með rútum. Þór segir að þetta sé slæm þróun. „Ég veit að það var haft samband við Landsbjörg og bara beðið um farþegalista, sem við auðvitað veittum ekki,“ sagði Þór í viðtali í Kastljósi í kvöld.
Einnig var rætt við Brynhildi Bolladóttur, upplýsingafulltrúa Rauða krossins, í þættinum. Hún tók í sama streng og Þór og sagði þetta ekki æskilega þróun. Það sé hlutverk sérfræðinga Rauða krossins að verja fólk, sem orðið hefur fyrir áföllum, fyrir áreiti. Þar séu fjölmiðlar ekki undanskildir. Oft séu aðstæður þannig að fólk geti ekki metið það hvort það eigi að fara í viðtöl eða ekki og við þannig aðstæður ráðleggi sérfræðingar Rauða krossins fólki frá því að veita viðtöl. „Allt áreiti þegar fólk hefur lent í áföllum eða alvarlegum atburðum getur haft afleiðingar,“ segir hún.