Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína í upphafi 150. löggjafarþings sem sett var í gær. Loftslagsmál, popúlismi, lífskjör og jafnræði voru meðal þeirra málefna sem voru forsætisráðherra hugleikin í ræðu hennar. Umræður um stefnu forsætisráðherra standa svo fram eftir kvöldi. Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu frá Alþingi, ásamt textalýsingu, á vefnum.
Mannkynið ber ábyrgð á ástandinu
Forsætisráðherra sagði að loftslagsváin væri stærsta áskorun mannkynsins. Mannkynið beri ábyrgð á ástandinu. Það sé verkefni þess að draga úr hraða þessarar ógnvænlegu þróunar, lágmarka skaðann og tryggja framtíð lífríkisins alls á þessari plánetu.
Hún væri stolt af því að leiða ríkisstjórn sem leggi fram fyrstu fjármögnuðu aðgerðaráætlunina til að berjast gegn loftslagsvánni. Efnahagslegur hvati verði nýttur til að ná loftslagsmarkmiðum. Þá verði loftslagsmarkmið höfuðmarkmið nýrrar matvælastefnu stjórnvalda sem líti dagsins ljós í vetur.
„Ég fagna þeirri auknu meðvitund sem gætir meðal almennings um mikilvægi þess að við leggjum öll okkar lóð á vogarskálarnar. En við getum ekki ætlast til að almenningur sjái alfarið um baráttuna. Stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, atvinnurekendur og samtök launafólks verða að draga vagninn. Samstillt átak er forsenda þess að við náum raunverulegum árangri.“
Ofsinn á kostnað málefnalegrar umræðu
Forsætisráðherra nefndi að þingmenn hefðu verið sakaðir um landráð í umræðum um þriðja orkupakkann og sumir kallaðir morðingjar fyrir að styðja lög um þungunarrof.
„Ofsinn á greiða leið í fréttir og stundum á kostnað málefnalegrar umræðu. Víða í Evrópu vex popúlískum hreyfingum fiskur um hrygg, grafið er undan mannréttindum og vegið að innflytjendum. Sanngirni víkur fyrir æsingi og öfgum. Þá verður leiðin æ greiðari fyrir þá ófyrirleitnu að komast til valda og ýta undir fyrirlitningu almennings á stjórnmálum, flokkum, lýðræði og þingræði.“
Hún hefði hins vegar bjargfasta trú á þingræðinu. Þá liti hún á lýðræðislegar stjórnmálahreyfingar sem eina undirstöðu lýðræðisríkja þar sem staðinn er vörður um mannréttindi, réttindi þeirra sem standa höllum fæti og lýðræðislegar stofnanir. Það væri jákvætt hversu mikil tækifæri til stjórnmálaþátttöku væru á Íslandi.
„En við þurfum að vera á verði gagnvart breyttu starfsumhverfi stjórnmálanna og ekki síst tilraunum til að ná völdum og áhrifum með nafnlausum áróðri á nýjum miðlum ef takast á að tryggja áfram gagnsæið sem er undirstaða lýðræðisins.“
Þörf á stjórnarskrárbreytingu
Hatrömm umræða að undanförnu um meðferð orkuauðlindarinnar sýni hversu mikil þörfin „er á því að Alþingi standi við að gera breytingar á stjórnarskrá, ekki síst með ákvæði um þjóðareign á auðlindum og umhverfissjónarmið við auðlindanýtingu,“ sagði hún.
„Það á að vera forgangsmál að tryggja að öll þau gæði sem náttúran hefur gefið okkur séu í sameiginlegri eigu okkar allra – hvort sem það er vatnið, jarðvarminn, vindurinn, hafið eða hvað annað.“
Hún sagði að vinnu að slíkum stjórnarskrárákvæðum ætti að ljúka síðar á árinu. Þá væri unnið að tillögum að skýrari lagaramma fyrir jarða- og landaviðskipti og þar á meðal stöðu landsréttinda og vatnsréttinda.
Vilja auka félagslegan stöðugleika
Lífskjarasamningar náðust á almenna vinnumarkaðnum í vor. Forsætisráðherra sagði aðgerðir stjórnvalda við gerð kjarasamninga hafi miðast að auknum félagslegum stöðugleika.
Fyrirhugað þriggja þrepa skattkerfi eigi að lækka skattbyrði tekjulægstu hópana. Lengja eigi fæðingarorlof og hækka barnabætur. Einnig eigi að ráðast í aðgerðir í húsnæðismálum til að jafna kjör. Þá séu stjórnvöld að auka opinbera fjárfestingu til að mæta slaka í hagkerfinu. „Stjórnvöld munu standa undir þeim væntingum sem til þeirra eru gerðar,“ sagði forsætisráðherra.
Ætla að mæta fjórðu iðnbyltingunni
Tillögur að aðgerðum til að mæta fjórðu iðnbyltingunni og áhrifum hennar á íslenskan vinnumarkað verða lagðar fram í vetur, sagði hún. Ný störf verði til, sum taki breytingum, önnur hverfi. Þá þurfi að efla fjárfestingu í nýsköpun og auka tækifæri fólks til að sækja sér nýja menntun og færa sig til í starfi.
Áskorunin felist í því að auka verðmætasköpun í öllum atvinnugreinum en tryggja um leið að ávinningurinn af tæknibreytingum dreifist með réttlátum hætti.
Aðgerðir í mannréttindamálum bíða afgreiðslu
Katrín sagði að frekari aðgerðir sem miði að úrbótum í mannréttindamálum biðu nú afgreiðslu. Hún muni leggja fram framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum á þessu þingi. Þá vinni réttarfarsnefnd að tillögum um heildstæðar úrbætur í málefnum brotaþola kynferðisbrota. Alþjóðleg ráðstefna um #metoo-hreyfinguna verði haldinn hér á landi í næstu viku.
Ísland, best í heimi
„Ísland er best í heimi í þessu og hinu en við getum orðið enn betri. Og um það ættum við að geta verið sammála,“ voru meðal lokaorða forsætisráðherra.
„Sjötíu og fimm ára lýðveldið Ísland er enn þeirrar gerðar að það eflist við hverja raun. Þess vegna er ég stolt af því að tilheyra þessu samfélagi þar sem við tökumst á um ýmis mál en stöndum saman þegar á reynir. Ágreiningur er ekkert til að óttast heldur er hann sameiginleg áskorun okkar allra sem eigum það sameiginlegt að vilja búa hér í þessu landi. Grunnskylda okkar allra er við samfélagið okkar og það er samfélagið sem gerir okkur að einni þjóð.“