Loftlagsmál og sjálfbærni Norðurslóða eru meðal helstu málefna sem hafa verið rædd meðal leiðtoga Norðurlandanna og Angelu Merkel kanslara Þýskalands síðustu daga. Fyrr í dag héldu leiðtogarnir sameiginlegan blaðamannafund í Viðey. Uppgangur hægri öfgaafla í Evrópu hefur jafnframt verið ræddur. Katrín Jakobsdóttir þakkaði erlendum gestunum fyrir komuma og sagði þau hafa átt gott samtal.
Loftlagsmál og sjálfbærni Norðurslóða mikilvægt
Einn fréttamaður frá hverju landi fékk að spyrja einnar spurningar. Flestum var þeim beint að Angelu Merkel kanslara Þýskalands og fóru spurningarnar um víðan völl. Hægt er að horfa á fundinn í heild sinni hér að ofan.
Merkel sagði mikilvægt að horfa á Norðurslóðir með útsjónarsemi, þar sem bráðnun hafíss geti haft miklar afleiðingar. Þýskaland hafi hingað til ekki verið nægilega vel vakandi fyrir mikilvægi heimskautsins en á því verði breyting í næstu viku. Evrópusambandið ætti að vera vakandi fyrir því líka,“ sagði Merkel.
Nauðsynlegt að sýna fram á alvöru með aðgerðum
Leiðtogarnir höfðu orð á því að samstarf Norðurlandaþjóðanna væri gott en Þýskaland gæti spilað veigamikið hlutverk í enn sterkari samvinnu. Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði að þegar kæmi að loftlagsmálum og sjálfbærni væri nauðsynlegt að sýna fram á það með aðgerðum að löndunum væri alvara með stefnur sínar.
Mette Fredriksen, forsætisráðherra Danmerkur, tók undir það að löndin þyrftu að leggjast á eitt til að sporna gegn loftlagsvandanum. Þá sagði hún mikilvægt að á þeim tímum sem við lifum, þegar heimurinn er að breytast, sé mikilvægt að Norðurlöndin deili sömu gildum og hugmyndum.
Mikilvægt að vinna saman gegn uppgangi hægri öfgaafla
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, sagði Norðurlöndin vera samfélög sem eru fær um að gera stórar breytingar til að viðhalda sjálfbærni og vinna gegn loftlagsmálum. Þá var hún spurði út í það að glæpahópar í Svíþjóð væru að teygja starfsemi sína til Noregs og Danmerkur. Hún sagði nauðsynlegt að löndin myndu vinna saman gegn frekari uppgangi hægri öfgaafla sem vinni saman milli landa.
Evrópulönd eigi samtöl við Rússa
Þá var Antti Rinne forsætisráðherra Finna spurður út í heimsókn Putin Rússlandsforseta til Helsinki á næstu dögum og hvernig hægt sé að létta á þeirri spennu sem hefur verið í Evrópu. Rinne sagði að Putin hafi verið gert ljóst að það sem hernaðaraðgerði Rússa í Úkraínu væru ekki í lagi. „Það er mikilvægt að eiga þessi samtöl við Rússland og við Finnar höfum átt við þá góðar samræður," sagði Rinne. Friður sé best tryggður ef virk samtöl eigi sér stað.